Erlent

Íslendingar hiti hugsanlega Ólympíuþorpið

Guðjón Helgason skrifar

Svo gæti farið að íslenskum orkufyrirtækjum yrði falið að sjá um að hita Ólympíuþorpið sem byggt verður fyrir vetrarólympíuleikanna í Sochi í Rússlandi 2014. Möguleikinn var ræddur á fundi í Moskvu fyrir helgi.

Íbúar í rússnesku borginni Sochi við Svartahafið fögnuðu mikið á fimmtudaginn þegar tilkynnt var að Vestrarólympíuleikarnir 2014 yrðu haldnir þar. Valið stóð á milli Sochi, Pyeongchang í Suður-Kóreu og Salzburg í Austurríki. Valið á Sochi er sagt persónulegur sigur fyrir Vladimír Pútín, Rússlandsforseta, sem mætti í eigin persónu á fund alþjóðaólypíuráðsins í Gvatemala í vikunni þar sem kosið var milli borganna. Þetta verður í fyrsta sinn sem Ólympíuleikar eru haldnir á rússnesku landsvæði síðan 1980 þegar sumarólympíuleikar voru haldnir í Moskvu Sovétríkjanna.

Valið á Sochi bar á góma á fundi Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra Reykjavíkur, með Júrí Lusjkov, borgarstjóra í Moskvu fyrir helgi. Einnig var það rætt á fundi fulltrúa íslenskra orkufyrirtækja með sérfræðingum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og annarra opinberra fulltrúa í Moskvu - en fjölmenn viðskiptasendinefnd er í fylgd með borgarstjóra í Moskvu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var sá möguleiki ræddur á fundinum að Íslendingar tækju að sér að hita upp ólympíuþorpið sem mun rísa í Sochi. Undir borginni munu vera háhitasvæði sem hægt yrði að nota. Óvíst er þó hvort sú leið verður ofan á en ljóst að mikil uppbygging verður í borginni vegna Ólympíuleikanna. Yfirvöld hafa heitið því að leggja jafnvirði rúmlega sjöhundruð og þrjátíu milljarða íslenskra króna í framkvæmdir - sextíu prósent til opinberra verkefna og fjörutíu prósent til einkafyrirtækja.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur áður verið ræddur sá möguleiki að Íslendingar heiti Ólympíuþorp, þ.e. í Peking í Kína þar sem sumarólympíuleikar verða á næsta ári. Ekki varð af því þar sem þorpið var byggt á svæði í borginni þar sem ekki var unnt að fara þá leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×