Fastir pennar

Hungraðir fuglar

Mikill uppgangur máva hefur verið í höfuðborginni og víðar um landið þetta sumar og árið í fyrra. Sést hefur til þeirra á ótrúlegustu stöðum, jafnvel uppi við Heklu þar sem mikið er af ormi í mosanum. Má rekja ferðir þeirra til þess að lítið er af sandsíli í sjónum sem er helsta fæða mávanna sem að öllu jöfnu halda sig niðri við sjóinn, enda er mávurinn strandfugl.

Það er ekki í eðli mávsins að leita svona langt inn til landsins en hann er snjöll skepna og deyr ekki úrræðalaus þótt fæðuna þrjóti við hafið. Borgaryfirvöld hafa með misgóðum árangri reynt að bregðast við þessu og hafa til að mynda aðferðir Gísla Marteins, sem gengu út á að svæfa mávana og snúa þá úr hálsliðnum í hreiðrum þeirra, farið misvel í fólk.

Á næstu dögum mun Umhverfissvið Reykjavíkur hengja upp veggspjöld á ýmsum opinberum stöðum í Reykjavík með skilaboðum um hvernig beina megi fuglinum frá borginni. Fólk á að gefa öndunum minna af brauði við Tjörnina í júlí á meðan andarungarnir eru að komast á legg, og ganga betur um borgina með því að henda ekki matarleifum á göturnar, sem varla ætti að þurfa að segja fólki.

Þar að auki er löngu orðið tímabært að taka alveg fyrir það að gefa öndunum brauð enda eru það leifar gamalla tíma þegar lítið var um afþreyingu í boði fyrir fjölskyldufólk. Mávar finnast víðar í borgum en í henni Reykjavík og hafa fleiri tekist á við mávana. Í borginni Gloucester á Englandi hafa mávarnir verið að hrella fólk í nokkur ár og helst kvartar það undan hávaða frá þeim. Þar á bæ eru menn orðnir sérfræðingar í að takast á við vandann.

Borgarráðið í Gloucester hefur síðustu þrjú árin látið hella sérstakri olíu yfir eggin að vori sem drepur þau án þess að mávarnir átti sig á því, eða sett gerviegg í hreiðrin. Fyrir vikið sitja þeir lengur á eggjunum og eru rólegri og hávaðinn í þeim því minni. Þetta eru nokkuð saklausar aðferðir sem ætti að vera auðvelt að leika eftir.

Annað sem er þó mun alvarlegra en hávaðasamir og frekir mávar er hrun sandsílastofnsins, sem er talið stafa af loftslagsbreytingum sem hita sjóinn. Vistfræðingar hafa nú af því miklar áhyggjur að lundastofninn hrynji af þeim sökum þar sem hann nærist aðallega á sandsílum og sá smáfiskur sem hafið hefur upp á að bjóða nægi ekki til að metta lundann.

Einnig hefur kríustofninn orðið fyrir áfalli vegna skorts á sandsíli. Þegar upp er staðið eru það sandsílin sem menn ættu að hafa þyngstu áhyggjurnar af. Ef fer sem horfir verður þetta vandamál næstu árin og því nokkuð ljóst að mávarnir munu hrella okkur næsta sumar líka.

Því er ráð að hugsa fyrir varanlegri lausn á mávavandanum og vera vel undirbúin næsta vor þegar þeir koma til landsins til að verpa. Átak Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar ætti að skila einhverjum árangri það sem eftir er sumars. Í það minnsta mun það auka á hreinlæti borgarinnar. Við megum þakka mávunum fyrir að vekja okkur til vitundar um umgengni okkar um borgina, þótt okkur líki ekki umgengni þeirra.






×