Formúla 1

Engin Formúla í Bandaríkjunum á næsta ári

NordicPhotos/GettyImages

Formúlumógúllinn Bernie Ecclestone hefur tilkynnt að ekki verði keppt í Indianapolis í Bandaríkjunum á næsta ári. Ecclestone er einráður þegar kemur að auglýsingasamningum í Formúlu 1 og segir hann að slitnað hafi upp úr viðræðum við Bandaríkjamenn um mótshald á næsta ári. "Við náðum ekki samningum - við skulum sjá hvort við söknum Bandaríkjanna á næsta ári," sagði Ecclestone í samtali við Reuters í dag.

Ecclestone hefur áður lýst því yfir að Formúla 1 geti vel þrifist án bandaríska markaðarins sem aldrei hefur tekið íþróttinni jafn opnum örmum og aðrar heimsálfur. Uppákoman sem varð í Indianapolis kappakstrinum árið 2005 hefur eflaust mikið að segja í þessum efnum, en þá kepptu aðeins sex bílar á brautinni eftir að hinir neituðu að aka vegna óuppfylltra öryggisskilirða. Margir eru á því að það hneyksli hafi gengið að íþróttinni dauðri í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×