Finnski ökuþórinn Kimi Raikkönen verður á ráspól í þýska kappakstrinum á Nurburgring í Formúlu 1 á morgun eftir að hann náði besta tímanum í tímatökum í dag. Lewis Hamilton ók út af brautinni og var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa klesst bíl sinn. Fernando Alonso hjá McLaren náði öðrum besta tímanum og Felipe Massa félagi Raikkönen á Ferrari þriðja.
Þær fréttir bárust á blaðamannafundi eftir tímatökurnar að Lewis Hamilton hefði sloppið með minniháttar meiðsli eftir harðan árekstur sinn í dag. Hann var á rúmlega 250 km hraða þegar hægra framdekk á bílnum hans sprakk með þeim afleiðingum að hann skall á vegg.