Erlent

Neyðarástandi lýst yfir í Grikklandi

Guðjón Helgason skrifar

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Grikklandi vegna skógarelda sem loga þar á nærri tvö hundruð stöðum. Vel á fimmta tug manns hafa farist í þeim og óttast að margfallt fleiri hafi týnt lífi. Yfirvöld segja að kveikt hafi verið í á sumum stöðum og einn maður handtekinn.

Björgunarmenn hafa fundið að minnsta kosti fjörutíu og sex lík á þeim svæðum þar eldar hafa logað í Suður-Griklandi. Óttast að margfallt fleiri hafi týnt lífi. Verst er ástandið á Pelopsskaga.

Skógereldarnir kviknuðu á Pelopsskaga í gærmorgun og hafa logað á nærri tvö hundruð stöðum síðan þá. Eldar hafa einnig kviknað á tveimur stöðum nærri Aþenu. Skógareldarnir eru sagðir þeir verstu sem geisað hafa í Grikklandi í áratugi.

Eldarnir hafa breiðst hratt út og ekki hafa allir íbúar haft ráðrúm til að forða sér. Lík hafa fundist í brunnum bílum og á sviðnum engjum. Fólk sem hafði lagt á flótta en náði ekki að forða sér. Sumir hafa orðið innlyksa og hringt í sjónvarps- og útvarpsstöðvar til að biðja um hjálp sem ekki hefur verið hægt að veita. Björgunarmenn hafa reynt hvað þeir geta en erfiðlega gengið að hemja eldana. Vindasamt á sumum svæðum og hiti kæfandi, um og yfir fjörutíu stig.

Sigrún Erna Óladóttir hefur búið á Grikklandi í þrjátíu ár. Hún sér reykinn frá eldunum en er í öruggu skjóli enn sem komið er. Hún segir að reykurinn hafi skyggt á sólina í dag og að Grikkir allir séu skelfingu lostnir.

Frakkar, Norðmenn og Þjóðverjar hafa sent þyrlur og flugvélar sem notaðar verða við slökkvistarfið. Kostas Karamanlis, forsætisráðherra Grikklands, lýsti síðdegis yfir neyðarástandi í landinu.

Í fyrstu var talið að eldarnir myndu einvörðungu valda vistfræðilegum hörmungum en ekki miklu manntjóni. Raunin hefur nú orðið önnur. Grikkir eru ævareiðir stjórnvöldum sem þeir segja hafa brugðist hægt og illa við hættunni. Fullvíst er talið að Karamanlis, forsætisráðherra, og ríkisstjórn hans verði refsað í þingkosningum eftir þrjár vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×