Erlent

Hestaflensa í Ástralíu

Guðjón Helgason skrifar

Hestaflensa hefur skotið sér niður í nágrenni við veðhlaupahesta í Ástralíu. Veikin er bráðsmitandi og ógnar íþrótt sem skilar Áströlum milljörðum í kassann.

Svokallaðri hestainflúensu varð vart í hestum sem ekki eru notaðir í veðhlaupum á fimmtudaginn. Þeir voru á búgarði við hlið stærstu veðhlaupabrautarinnar í Sydney í Ástralíu. Einkenna varð einnig vart hjá fimm hestu á öðru búi í borginni. Öllum kappreiðum var frestað í minnst þrjá sólahringa á meginlandi Ástralíu og varnarsvæði afmarkað þar sem veikin greindist.

Andrew Harding, yfirmaður ástralska veðhlauparáðsins, segir þessa ákvörðun ekki auðvelda. Hún hafi slæm áhrif á marga. Hafa beri þó í huga að ef veikin breiðist út hafi það mun verri áhrif en lokun í þrjá sólahringa. Þá gæti þurft að hætta veðhlaupum í marga mánuði.

Margir verðmætustu gæðingar Ástrala eru á svæðinu sem hefur verið afmarkað og metnir samanlagt á jafnvirði tæplega tuttugu og sex milljarða íslenskra króna. Ekki verður hægt að nota þá til undaneldis strax eins og áætlað var og ekki keppar þeir í bráð. Það mun kosta eigendur og mótshaldara milljarða.

Veikin greindist síðast svo vitað sé í hestum í Suður-Afríku 1986. Veðhlaupum var hætt í fimm mánuði vegna hennar. Óttast var að veikin hefði greinst í Japan í síðustu viku og var keppni frestað. Ekki reyndist um smita að ræða.

Flensa fer illa með folöld og deyja þau flest ef þau komast í tæri við sýkta hesta. Fullvöxnum hestum gengur betur að berjast við hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×