Erlent

Opnaði iPhone

Guðjón Helgason skrifar

Sautján ára unglingsstrák hefur tekist að aflæsa iPhone, nýjustu tæki Apple tölvurisans. Tækið kemur ekki á markað í Evrópu fyrr en seinna á þessu ári en nú geta tækniþyrstir utan Bandaríkjanna tekið forskot á sæluna.

Georg Hotz tókst það sem margir hafa reynt - að aflæsa iPhone sem enn er bara seldur í Bandaríkjunum og aðeins hægt að nota með símkorti frá bandaríska símarisanum AT&T. Hann þurfti ekki fullkomnar græjur til verksins. Honum hafi verið bent á að nota gítarnögl til að opna tækið og það hafi gengið. Síðan hafi hann notað lóðbolta og mælitæki.

Nú er leikur einn að nota símakort frá öðru fyrirtæki í tækinu. Þetta telja margir að opni fyrir notkun á iPhone utan Bandaríkjanna - nokkru áður en Apple ætlaði sér. Aðferð Hotz er þó ögn flóknari en hún virðist og því hætt við að einhverjir reyni og skemmi þá tækið sitt. Sérfræðingar á markaði telja ólíklegt að þetta hafi áhrif á AT&T í Bandaríkjunum. Óformlegt samkomulag sé í gildi mili símafyrirtækja þar í landi þannig að önnur fyrirtæki komi í veg fyrir að hægt verði að nota kort þeirra í iPhone.

Hotz segist hafa lært mikið á fiktinu. Þetta hafi tekið hann allt sumarið. Í byrjun hafi vinir hans sagt að hann væri að sóa tíma sínum en nú væru þeir fullir aðdáunar. Hotz segist í framtíðinni ætla að leggja fyrir sig rannsóknir í taugavísindum. Hann vilji brjóta sér leið inn í heilann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×