Menning

Krónprins íslenskra glæpasagna

Þýska bókaútgáfan List sem er hluti af Ullstein samsteypunni gefur út glæpasöguna Krosstré eftir Jón Hall Stefánsson á morgun. Kynningareintök voru send á þýska fjölmiðla og bókabúðir í síðustu viku og virðist mikill áhugi vera á bókinni. Biðpantanir frá bókabúðum nema nú þegar yfir 20.000 eintökum og er fyrsta prentun bókarinnar þrotin, en endurprentun hafin.

Þrátt fyrir að bókin eigi ekki að koma út fyrr en á morgun er fyrsti dómurinn fallinn. Jürgen Ruckh segir í dómi sínum að sagnaheimur Krosstrés sé merkilegur og svo spennandi að varla sé hægt að slíta sig frá bókinni. Hann segir Jón Hall eiga titilinn krónprins íslenskra glæpabókmennta skilinn.

Bókin kom út í Noregi í sumar og hefur hún einnig verið lofuð af gagnrýnendum þar í landi. Ole Hoel hjá Adresseavisen segist næstum hafa fallið af stól sínum þegar glæpamaðurinn var dreginn fram og finnst honum Jón Hallur ná að búa til snilldarlega fléttu.

Jón Hallur er að vonum ánægður með viðtökurnar en þetta er fyrsta skáldsaga hins 48 ára gamla höfundar. "Ég gerði mér nú ekki vonir um annað en að geta klárað bókina," segir Jón í samtali við Vísi. Hann ætlar nú að halda ótrauður áfram og er von á nýrri glæpasögu með haustinu. "Það er oft þannig að þegar einn tekur við sér fara hjólin að snúast en eftir að bókin kom út í Noregi fóru önnur lönd að sýna henni áhuga," segir Jón Hallur.

Krosstré kom út hjá Bjarti árið 2005 en er nú væntanleg í þýðingu í Frakklandi, Danmörku, Hollandi, Spáni og víðar á næstu mánuðum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×