Erlent

Ísland ekki lengur í alfaraleið

Guðjón Helgason skrifar

Ísland verður síður í alfaraleið í sjóflutningum þegar Norð-vestur siglingaleiðin er að verða greiðfær skipum. Þetta segir íslenskur skipulagsfræðingur og segir að bráðunin íss á svæðinu sé töluvert á undan áætlun.

Norð vestur leiðin hefur verið vörðuð ísjökum árið um kring og því illfær. Á nýjum gervihnattamyndum Evrópsku geimferðastofnunarinnar má sjá að ísinn hefur hopað töluvert á siglingaleiðinni - sérfræðingar segja bráðnunina þrjátíu árum á undan áætlun. Ísinn nái nú aðeins yfir þriggja milljóna ferkílómetra svæði. Síðustu tíu árin hafi ís að meðaltali hopað á um hundrað þúsund ferkílómetra svæði á ári - um milljón ferkílómetra á ári sé nú að ræða. Hraðari hnatthlýnun sé um að ræða.

Í bók sinni How the World Will Change with Global Warming spáir Trausti Valsson, skipulagsfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, að Ísland yrði í þjóðleið sjóflutninga milli Kyrrahafs og Atlantshafs um leið og ís minnkaði í Norður-Íshafi. Fréttir dagsins breyti því.

Trausti segir að búið sé að leggja út í miklar rannsóknir sem miði að því að hér á Íslandi geti risið uppskipunarhöfn. Staða Íslands sé góð miðað við að flutningar fari beint yfir Norðurpólinn - þá sé Ísland mjög á leiðinni til Bandaríkjanna og Evrópu - nánast á miðpunkti. En fari Norð-vestur siglingaleiðin að vera svona opin áfram þá sé það orðið krókur að fara austur fyrir Grænland og til Íslands.

Norð-vestur siglingaleiðin fræga verður í framtíðinni uppspretta deilna ef að líkum lætur. Kanadamenn segjast geta lokað fyrir ferð skipa en því hafna Evrópusambandið og Bandaríkjamenn - um alþjóðlegt siglingasvæði sé að ræða sem allir geti farið um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×