Fótbolti

Valur stóð í Frankfurt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valsstúlkur höfðu ærna ástæðu til að fagna í fyrri hálfleik í dag.
Valsstúlkur höfðu ærna ástæðu til að fagna í fyrri hálfleik í dag. Mynd/Anton

Íslandsmeistarar Vals stóðu heldu betur í einu sterkasta félagsliði heims, Frankfurt frá Þýskalandi, í leik liðanna í Evrópukeppni félagsliða í dag.

Margrét Lára Viðarsdóttir kom Val yfir seint í fyrri hálfleik og þannig stóðu leikar þar til um tíu mínútur voru til leiksloka.

Þá skoraði ein besta knattspyrnukona heims, Birgit Prinz, jöfnunarmark Þjóðverjanna og Petra Wimbersky skoraði tvö mörk til viðbótar á lokamínútunum. Úrslit leiksins því 3-1 fyrir Frankfurt.

Valur skoraði í stöðunni 1-1 en markið var dæmt af vegna rangstöðu. 

"Mig langar helst til að gráta," sagði Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Vals, í viðtali við Vísi rétt í þessu. Viðtal við hana verður birt innan skamms.

Liðið er sem fyrr segir eitt það besta í heimi og hefur tvívegis unnið Evrópukeppni félagsliða, árin 2002 og 2006.

Á síðastliðnu tímabili varð félagið tvöfaldur meistari í Þýskalandi, í fimmta skiptið á átta árum.

Margar af leikmönnum liðsins voru í þýska landsliðinu sem varð á dögunum heimsmeistari í knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×