Íslenski boltinn

Magni ráðinn þjálfari Fjarðabyggðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik með Fjarðabyggð í sumar.
Úr leik með Fjarðabyggð í sumar.

Magni Fannberg hefur verið ráðinn þjálfari 1. deildarlið Fjarðabyggðar. Þetta staðfesti hann í samtali við Vísi.

„Mér líst mjög vel á þetta,“ sagði Magni. „Þetta hafa verið mjög erfiðir dagar. Það var kannski ekki erfitt að velja Fjarðabyggð en það voru sex lið sem höfðu samband og gat ég valið á milli fjögurra tilboða.“

Hann segist ekki í vafa um að hann hafi valið besta kostinn. „Þetta er mikil áskorun og hafnaði ég til að mynda stærri liðum. Ég hræðist heldur ekki þá staðreynd að Fjarðabyggð náði góðum árangri í sumar. Ég tel að ég geti byggt á því og náð svipuðum, ef ekki betri árangri.“

Magni segir að leikmannamál félagsins verði skoðuð á næstu dögum en hann vonast til að bæta við sig að minnsta kosti tveimur íslenskum leikmönnum.

Hann flytur svo austur í maí næstkomandi en þangað til verða svokallaðar æfingahelgar. „Við æfum kannski í sjö skipti á fjórum dögum í kringum helgina auk þess sem við tökum þátt í deildabikarnum og Powerade-bikarnum fyrir norðan.“

Magni óttast heldur ekki að taka við liði á Austurlandi. „Ég er nú Ísfirðingur og ólst upp á Súðavík og Ísafirði. Ég er því öllu vanur. Ætli blandan af sveitastráknum og borgarbarninu í mér henti ekki vel fyrir starfið fyrir austan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×