Íslenski boltinn

Magnús Páll: Varalið Schalke minn fyrsti kostur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Magnús Páll í leik með Breiðabliki gegn HK í sumar.
Magnús Páll í leik með Breiðabliki gegn HK í sumar.

Magnús Páll Gunnarsson segir að hugur hans stefni til Þýskalands, nánar tiltekið til varaliðs þýska úrvalsdeildarliðsins Schalke.

Hann æfði með bæði varaliði Schalke og Borussia Dortmund í síðasta mánuði, sem og norska liðinu Haugesund.

„Mér leist gríðarlega vel á Schalke," sagði Magnús Páll við Vísi. „Ég tók þátt í æfingaleik með liðinu og stóð mig bara ágætlega. Mér var svo boðið í kjölfarið að koma aftur og æfa með liðinu í lengri tíma."

Magnús Páll mun á mánudaginn næstkomandi halda til Svíþjóðar þar sem hann mun æfa með 1. deildarliðnu Bunkeflo í nokkra daga áður en hann heldur til Þýskalands. Þar mun hann æfa með varaliði Schalke út nóvembermánuð.

„Hugur minn stefnir til Þýskalands. Ég sé mikið tækifæri í því að spila með varaliði Schalke. Mér líst ekkert illa á Svíþjóð en eins og er yrði það minn annar kostur."

Hann á einnig í viðræðum við lið í Landsbankadeildinni en hann segir að það sé ekki Breiðablik.

„Það verður alltaf ólíklegra að ég spili með Breiðabliki á næsta tímabili."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×