Golf

Birgir Leifur í fyrsta sæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Birgir Leifur lék glimrandi vel í dag.
Birgir Leifur lék glimrandi vel í dag. Nordic Photos / Getty Images

Birgir Leifur Hafþórsson er í fyrsta sæti á annars stigs úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina á næsta ári fyrir lokahringinn sem fer fram á morgun.

Tuttugu kylfingar af þeim 81 sem taka þátt öðlast þátttökurétt á lokastigi úrtökumótaraðinnar sem hefst í næstu viku. Á þeim mótum taka 308 kylfingar þátt og keppa þeir um 74 laus sæti í Evrópumótaröð næsta árs.

Birgir Leifur lék á 65 höggum í dag sem er besti árangur mótsins til þessa. Hann er samtals á ellefu höggum undir pari og er einn í efsta sæti mótsins.

Englendingurinn David Dixon kemur næstur á tíu höggum og Finninn Roope Kakko er í þriðja sæti á átta höggum undir pari ásamt Ítalanum Paolo Terreni. Kakko lék einnig á 65 höggum í dag.

Birgir Leifur verður í síðasta ráshópnum á morgun ásamt þeim Dixon og Kakko. Þeir hefja leik klukkan 9.50 í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×