Fótbolti

Lögreglumaðurinn niðurbrotinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bróðir Gabriele Sandri var óhuggandi í gær.
Bróðir Gabriele Sandri var óhuggandi í gær. Nordic Photos / AFP

Lögreglumaðurinn sem varð valdur að bana 26 ára stuðningsmanns Lazio á Ítalíu í gær segist vera niðurbrotinn maður.

Maðurinn, Gabriele Sandri, var skotinn til bana er hann sat í bíl sínum á áningastað við þjóðveginn nærri borginni Azerro í Tuskanahéraði. Í kjölfarið braust út ofbeldi víða um Ítalíu í tengslum við knattspyrnuleiki.

Meðal þess sem átti sér stað var að fótboltabullur í Mílanó köstuðu grjóti í lögreglustöð og réðust að tveimur blaðamönnum.

Í Bergamo varð að flauta af leik Atalanta og AC Milan eftir tíu mínútna leik þar sem áhorfendur reyndu að ryðjast inn á völlinn.

Í Siena hrópuðu stuðningsmenn ókvæðisorðum að lögreglunni og kölluðu þá morðingja og þá var leik Roma og Cagliari frestað.

Jafnframt voru ýmis konar atvik í tengslum við leiki í neðri deildum Ítalíu sem rekja má til dauðsfallsins.

Sandri sat í bíl sínum er lögreglumaður hljóp til að stöðva slagsmál stuðningsmanna Lazio og Juventus við fyrrnefndan áningastað. Lögreglumaðurinn sagðist hafa verið í 200 metra fjarlægð og stungið byssunni í hulstrið sitt eftir að hafa skotið viðvörunarskoti í loftið.

„Ég var ekki að miða á neinn," sagði lögreglumaðurinn sem hefur verið starfandi sem slíkur í tólf ár. „Fyrsta skotið fór út í loftið og það síðara þegar ég var að hlaupa. Nú þegar ég veit hvað gerðist er ég algjörlega niðurbrotinn. Ég hef eyðilaggt tvær fjölskyldur, annars vegar fjölskyldu þessa drengs og mína fjölskyldu."

Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, sagðist vera afar áhyggjufullur vegna atburða gærdagsins og fyrirskipaði rannsókn.

Giancarlo Abete, forseti ítalska knattspyrnusambandsins, sagði að hann væri reiðubúinn að kynna róttækar breytingar í kjölfar þessara atburða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×