Erlent

Komið í veg fyrir fjöldamorð í Köln

Guðjón Helgason skrifar

Þýska lögreglan kom í veg fyrir fjöldamorð í menntaskóla í Köln. Ódæðin átti að fremja á morgun. Tveir námsmenn voru yfirheyrðir vegna málsins. Annar þeirra svipt sig lífi eftir það en hinn er nú í haldi lögreglu.

Á morgun er ár liðið frá því Sebastian Bosse, átján ára námsmaður í Emsdetten í vesturhluta Þýskalands, réðst inn í gamla skólann sinn þar og skaut á allt sem hreyfðist áður en hann svipti sig lífi. Enginn var myrtur í þeirri árás en fjölmargir særðust - þar af fimm alvarlega.

Á heimili Bosse fann lögregla dagbók þar sem vísað var til fjöldamorðanna í Columbine menntaskólanum í Colorado í Bandaríkjunum 1999. Tólf nemendur og einn kennari voru myrtir í þeirri árás og tuttugu og þrír særðust.

Fyrr í þessum mánuði voru fjöldamorð framin í skóla í Tuusula í Finnlandi. 18 ára námsmaður myrti þá sex samnemendur, kennara og skólahjúkrunarkonu áður en hann beindi byssunni að sér og svipti sig lífi. Í efni sem fannst í fórum hans var einnig vísað til ódæðanna í Columbine.

Annar þeirra sem ætluðu að minnast árásarinnar í Emsdetten á morgun með morðum er 18 ára en hinn var 17 ára. Sá yngri kastaði sér fyrir lest eftir yfirheyrslu lögreglu um helgina. Samnemandi dregjanna sá þá skoða myndir tengdar Columbine og lét skólastjórann vita. Þá fundust myndir tengdar ódæðunum 1999 á vefsíðu strákanna.

Við leit á heimilum þeirra fundust meðal annars loftbyssur og leiðbeiningar um hvernig ætti að búa til rörasprengjur. Ekkert sprengiefni fanns hins vegar. Eldri nemandinn er nú í haldi lögreglu en í yfirheyrslum yfir honum hefur komið fram að báðir vildu þeir drepa og særa annað fólk og ætluðu svo að fremja sjálfsmorð í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×