Finnski ökuþórinn Kimi Raikkönen varð í ár fyrsti Finninn til að verða heimsmeistari í Formúlu 1 síðan árið 1999. Þessi frábæri árangur skilaði honum þó aðeins í þriðja sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins í Finnlandi.
Flestir bjuggust við því að Ferrari-ökumaðurinn hægláti myndi vinna sigur í kjörinu, en það var hinsvegar frjálsíþróttamaður ársins í Evrópu, Tero Pitkamaki sem kjörinn var íþróttamaður ársins.
Pitkamaki er heimsmeistari í spjótkasti og hlaut 203 atkvæði í fyrsta sæti í kjörinu og annar varð skíðagöngumaðurinn Virpi Kuitunen sem fékk 118 atkvæði í fyrsta sæti, en Raikkönen þurfti að sætta sig við þriðja sætið. Hann fékk reyndar fleiri atkvæði í fyrsta sæti en Kuitunen (147), en skíðagarpurinn hlaut fleiri stig í kjörinu og hreppti því annað sætið.