Erlent

Seldi nemendur sína í kynlífsþrælkun

Óli Tynes skrifar
Skólastofa í Peking.
Skólastofa í Peking.

Kínversk kennslukona hefur verið dæmd til dauða fyrir að selja barnaníðingum telpur úr skóla sínum til kynlífsþrælkunar.

Hin 28 ára gamla Zhao Quingmei var stundakennari við skólann og fannst laun sín vera og lág. Til þess að drýgja tekjurnar fór hún að selja mat og snarl í skólanum. Það mun hafa verið önnur kona sem nefndi það fyrst að selja nemendurna.

En Quingmei þótti það góð hugmynd og hófst þegar handa. Það þykir sérstaklega óhugnanlegt að þegar hún vildi færa út kvíarnar samþykktu allir sem hún talaði við að taka þátt í þessu. Þeirra á meðal eiginmaður hennar sem líka er kennari við skólann.

Hann var einnig dæmdur til dauða, ásamt þriðja kennaranum. Aðrir fengu langa fangelsisvist, en alls voru það átján manns sem tóku þátt í barnasölunni. Alls voru seld 23 stúlkubörn á aldrinum 11-17 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×