Erlent

Bhutto myrt með skothríð og sprengju

Óli Tynes skrifar
Frá morðstaðnum í Rawalpindi.
Frá morðstaðnum í Rawalpindi.

Morðingi Benazir Bhutto, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Pakistan notaði bæði byssu og sprengju til að ráða hana af dögum. Bhutto var að koma af kosningafundi í borginni Rawalpindi  þegar hann réðist til atlögu. Sjónvarpsstöð í Pakistan segir að hún hafi verið skotin í höfuðið, en það hefur ekki verið staðfest.

Hitt hefur verið staðfest að morðinginn réðist til atlögu með skothríð til þess að komast sem næst henni og vera viss um að drepa hana. Þegar hann var kominn eins langt og hann gat, sprengi hann sprengju sem hann bar innan klæða.

Vitni að árásinni sagði við Ruters fréttastofuna að hann hefði heyrt skothvelli og svo gríðarlega sprengingu. Bílar tættust í sundur og líkamshlutar þeyttust langar leiðir. Að minnsta kosti sextán aðrir létu lífið og fjölmargir særðust. Bhutto var flutt á sjúkrahús en var úrskuðuð látin þegar þangað kom.

Benazir Bhutto var 54 ára gömul. Hún var aðeins 35 ára þegar hún var kjörin forsætisráðherra Pakistans árið 1988. Hún var fyrsta konan sem var kjörin leiðtogi múslimaríkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×