Bakþankar

Náðhús Reykjavíkur

Þráinn Bertelsson skrifar

Í þróuðum löndum ríkir pólitískur stöðugleiki vegna þess að almenningur hefur lært að láta stjórnmálamenn í friði og skiptir sér ekki af því sem þeir taka sér fyrir hendur. Stöðugleiki merkir „óbreytt ástand án framfara" og byggist á gagnkvæmu samkomulagi um að hvor aðili um sig láti hinn njóta vinnufriðar. Hlutverk almennings í nútímaþjóðfélagi er að borga skatta en hlutverk stjórnmálamanna er að hafa vit fyrir fólki.

MEÐAN ALMÚGINN sinnir vinnu- og neysluskyldu sinni án þess að mögla telja stjórnmálamenn ekki nauðsynlegt að setja strangar reglur um hvernig fólk hegðar sér þegar það er ekki á vinnustað sínum. Þetta fyrirkomulag er stundum kallað „frelsi" og tryggir almenningi margvísleg réttindi, svo sem að velja milli þriggja tegunda af stjórnmálaflokkum á fjögurra ára fresti. Tegundirnar sem í boði eru heita „hægri, vinstri og miðja" og samsvara hinum vinsælu bragðtegundum „súkkulaði, jarðarberja og vanillu".

ALMENNINGI sem í daglegu tali er nefndur „skríll" er í stórum dráttum heimilt að hegða sér að vild heima hjá sér og getur valið um fjölda sjónvarpsrása eða bölsótast nafnlaus á internetinu. Einu sinni á ári, fyrsta maí, er skrílnum heimilt að mála slagorð á skilti og fara í hópgöngu með lúðrasveit niður Laugaveginn. Fyrir daga raunveruleikaþátta í sjónvarpi var þetta býsna vinsælt en nú er svo komið að flestir gera sér ljóst að fyrirhafnarminna er að fylgjast með lífi annarra en að lifa sínu eigin.

ÞEGAR ALMENNINGUR er með hávaða og læti er talað um „skrílslæti". Skrílslæti eru heimiluð á íþróttaleikjum og skemmtistöðum og einnig á útisamkomum fyrstu helgina í ágúst. Fyrir utan að vera gagnslaus og ósmekkleg eru skrílslæti hættuleg lýðræðinu og hneykslanleg framkoma almennings í Ráðhúsinu núna í vikunni sýnir hversu aðkallandi það er að kaupa hingað nokkra gáma af taser-byssum. Leiðtogar almennings í Ráðhúsinu eiga rétt á að fá að vera í næði fyrir borgarbúum. Ráðhúsið er þeirra náðhús. (Náðhús er staður þar sem fólk á heimtingu á að vera í friði með allt niðrum sig).






×