Kraftur upplýsinga Óli Kristján Ármannsson skrifar 6. febrúar 2008 00:01 „Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað“, söng Megas með hljómsveitinni Íkarusi fyrir tæpum aldarfjórðungi og vísaði þar til velþekktrar brellu úr stjórnmálaumræðu. Vera má að í erfiðu árferði aukist líka áhugi fólks á hvernig öðrum gengur og ásókn í einhvern samanburð. Jóhann S. Hannesson, fyrrum skólameistari Menntaskólans á Laugarvatni, var ötull limrusmiður og snerti einnig á þessum umræðuvanda þjóðarinnar:Að huga ekki að náungans högum, né hlusta eftir illgjörnum sögum, lýsir áhugaskorti á íslensku sporti og ætti að bannast með lögum. Í markaðsárferði undangenginna vikna þar sem hlutafé hefur hríðfallið í verði í Kauphöllinni hér heima sem og erlendis fer ekki hjá því að vart verði við stóraukinn áhuga á högum náungans. Stundum er það í formi Þórðargleði vegna sögusagna um mikið fall einhverra þeirra sem borið hefur á í fjármálalífinu, eða jafnvel sagna um að einstök fyrirtæki hljóti að vera að falli komin vegna lækkana á markaðsvirði eigna þeirra í útlöndum. Við aðstæður sem þessar skiptir fyrirtækin höfuðmáli að koma hreint fram og gefa sem skýrasta mynd af stöðu sinni. Öll óvissa eykur á kjaftagang og færir þeim vopn í hendur sem hag gætu af því haft að tala niður gengi einstakra fyrirtækja. Þess ber nefnilega líka að gæta að með svonefndum skortstöðum geta fjárfestar veðjað gegn góðu gengi skráðra félaga og hafa því hagsmuni af því að gengi þeirra lækki sem mest. Skortstaðan gengur út á að fjárfestir fær lánuð hlutabréf og selur, en skuldbindur sig um leið til að kaupa þau aftur (og skila) að ákveðnum tíma liðnum. Lækki bréfin í verði hirðir viðkomandi mismuninn, en tapar peningum ef þau hækka. Exista hefur verið gagnrýnt nokkuð fyrir ógagnsætt uppgjör en í því beitir félagið svonefndri hlutdeildaraðferð sem þýðir að eignastaða þess miðast ekki við punktstöðu markaðsvirði í lok uppgjörstíma, heldur mats á virði eigna. Félaginu hefur verið legið á hálsi fyrir að færa upp virði óskráðra eigna en færa ekki niður virði eigna á markaði í uppgjörum sínum. Áður hefði væntanlega gilt varúðarregla um að færa fremur lægra verðgildi eigna en hærra í útreikningum, en núna birta félög uppgjör samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og gilda um þau reglur um hvernig færa skuli niður verðgildi eigna. Þannig þarf samkvæmt stöðlunum ekki að færa niður markaðsvirði skráðra hlutabréfa nema að lækkun sé veruleg og varanleg. Lækkun hefur nú staðið í hálft ár, en viðmið endurskoðenda í þessum efnum miðast við níu mánuði og að veruleg lækkun miðist við fimmtung af virði. Niðurfærsla eigna ætti þó tæpast að standa í félögum, því ekkert mælir á móti því að virði eigna sé fært upp á ný. Greiningardeild Landsbankans hefur orð á uppgjörsháttum Existu í umfjöllun sinni og bendir á að fjórða ársfjórðungslækkunin á virði eignarhlutar Existu í Kaupþingi og Sampo endurspeglist ekki í uppgjöri félagsins. Þá virðist munur á útreikningum greiningardeildarinnar og Existu liggja í endurmati Existu á óskráðum eignum. Ekki er hins vegar um það deilt hvort félagið beitir réttum reikningsskilaaðferðum heldur hvort aðferðin geti af sér óvissu um raunstöðu mála hjá félaginu. Rætnar fullyrðingar um gengi félaga ættu hins vegar ekki að geta verið lífseigar í umhverfi þar sem reikningar liggja fyrir og má þannig reikna með að miðað við orð Guðmundar Haukssonar, forstjóra SPRON, í hádegisviðtali Markaðarins nýverið slái uppgjör sjóðsins í dag á úrtöluraddir um gengi sparisjóðsins. Í myrkum bakherbergjum er hægt að véla um hvers kyns hluti og eina lausnin að bregða á loft ljósi upplýsingarinnar. Gagnsæi og sem mest aðgengi að upplýsingum er eitt af því sem tryggja á virkni lýðræðisins og getur upplýsingaljósið að sama skapi aukið vellíðan markaðarins með því að hrekja á brott skuggamyndir óvissunnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Nýtanleg verðmætasköpun um allt land Jóhann Frímann Arinbjarnarson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Gerum betur Hilmar Björnsson Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Geðrænn vandi barna og ungmenna Eldur S. Kristinsson Skoðun
„Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað“, söng Megas með hljómsveitinni Íkarusi fyrir tæpum aldarfjórðungi og vísaði þar til velþekktrar brellu úr stjórnmálaumræðu. Vera má að í erfiðu árferði aukist líka áhugi fólks á hvernig öðrum gengur og ásókn í einhvern samanburð. Jóhann S. Hannesson, fyrrum skólameistari Menntaskólans á Laugarvatni, var ötull limrusmiður og snerti einnig á þessum umræðuvanda þjóðarinnar:Að huga ekki að náungans högum, né hlusta eftir illgjörnum sögum, lýsir áhugaskorti á íslensku sporti og ætti að bannast með lögum. Í markaðsárferði undangenginna vikna þar sem hlutafé hefur hríðfallið í verði í Kauphöllinni hér heima sem og erlendis fer ekki hjá því að vart verði við stóraukinn áhuga á högum náungans. Stundum er það í formi Þórðargleði vegna sögusagna um mikið fall einhverra þeirra sem borið hefur á í fjármálalífinu, eða jafnvel sagna um að einstök fyrirtæki hljóti að vera að falli komin vegna lækkana á markaðsvirði eigna þeirra í útlöndum. Við aðstæður sem þessar skiptir fyrirtækin höfuðmáli að koma hreint fram og gefa sem skýrasta mynd af stöðu sinni. Öll óvissa eykur á kjaftagang og færir þeim vopn í hendur sem hag gætu af því haft að tala niður gengi einstakra fyrirtækja. Þess ber nefnilega líka að gæta að með svonefndum skortstöðum geta fjárfestar veðjað gegn góðu gengi skráðra félaga og hafa því hagsmuni af því að gengi þeirra lækki sem mest. Skortstaðan gengur út á að fjárfestir fær lánuð hlutabréf og selur, en skuldbindur sig um leið til að kaupa þau aftur (og skila) að ákveðnum tíma liðnum. Lækki bréfin í verði hirðir viðkomandi mismuninn, en tapar peningum ef þau hækka. Exista hefur verið gagnrýnt nokkuð fyrir ógagnsætt uppgjör en í því beitir félagið svonefndri hlutdeildaraðferð sem þýðir að eignastaða þess miðast ekki við punktstöðu markaðsvirði í lok uppgjörstíma, heldur mats á virði eigna. Félaginu hefur verið legið á hálsi fyrir að færa upp virði óskráðra eigna en færa ekki niður virði eigna á markaði í uppgjörum sínum. Áður hefði væntanlega gilt varúðarregla um að færa fremur lægra verðgildi eigna en hærra í útreikningum, en núna birta félög uppgjör samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og gilda um þau reglur um hvernig færa skuli niður verðgildi eigna. Þannig þarf samkvæmt stöðlunum ekki að færa niður markaðsvirði skráðra hlutabréfa nema að lækkun sé veruleg og varanleg. Lækkun hefur nú staðið í hálft ár, en viðmið endurskoðenda í þessum efnum miðast við níu mánuði og að veruleg lækkun miðist við fimmtung af virði. Niðurfærsla eigna ætti þó tæpast að standa í félögum, því ekkert mælir á móti því að virði eigna sé fært upp á ný. Greiningardeild Landsbankans hefur orð á uppgjörsháttum Existu í umfjöllun sinni og bendir á að fjórða ársfjórðungslækkunin á virði eignarhlutar Existu í Kaupþingi og Sampo endurspeglist ekki í uppgjöri félagsins. Þá virðist munur á útreikningum greiningardeildarinnar og Existu liggja í endurmati Existu á óskráðum eignum. Ekki er hins vegar um það deilt hvort félagið beitir réttum reikningsskilaaðferðum heldur hvort aðferðin geti af sér óvissu um raunstöðu mála hjá félaginu. Rætnar fullyrðingar um gengi félaga ættu hins vegar ekki að geta verið lífseigar í umhverfi þar sem reikningar liggja fyrir og má þannig reikna með að miðað við orð Guðmundar Haukssonar, forstjóra SPRON, í hádegisviðtali Markaðarins nýverið slái uppgjör sjóðsins í dag á úrtöluraddir um gengi sparisjóðsins. Í myrkum bakherbergjum er hægt að véla um hvers kyns hluti og eina lausnin að bregða á loft ljósi upplýsingarinnar. Gagnsæi og sem mest aðgengi að upplýsingum er eitt af því sem tryggja á virkni lýðræðisins og getur upplýsingaljósið að sama skapi aukið vellíðan markaðarins með því að hrekja á brott skuggamyndir óvissunnar.