Óttanum eytt Jón Kaldal skrifar 16. febrúar 2008 09:00 Í grófum dráttum má segja að stjórnendur séu af tveimur gerðum. Annars vegar þeir sem taka ákvarðanir út frá því hvernig hlutirnir hafa alltaf verið, og svo hinir sem reyna að sjá nokkra leiki fram í tímann og ákveða kúrsinn eftir því. Fyrri aðferðina má kenna við baksýnisspegilinn og hún hefur ýmsa kosti. Hún byggir á reynslu og getur forðað mistökum. Gallinn er sá að hún er í eðli sínu mjög íhaldssöm og svo eiga hlutirnir til að taka breytingum og fortíðin er þá alls ekki besti leiðarvísirinn. Síðari aðferðin byggir á því að sjá fyrir sér framtíðina og helst færa hana til nútímans. Þetta er vissulega áhættusamari aðferð en sú sem byggir á baksýnisspeglinum. Ef vel tekst til er hún hins vegar bæði margfalt líklegri til árangurs en ekki síður til að forðast dýrkeypt mistök. Lítil dæmisaga sem Moshe Rubenstein, prófessor við UCLA, sagði á námskeiði í Háskólanum í Reykjavík fyrir nokkrum árum fangar vel framtíðarhugsunina: Háskóli einn í Bandaríkjunum reisti nokkrar nýjar byggingar á svæði sínu. Þegar framkvæmdum var lokið var ákveðið að leggja ekki göngustíga til að tengja nýju húsin. Þess í stað var svæðið milli þeirra sléttað. Að nokkrum vikum liðnum lá ljóst fyrir hvað leiðir stúdentarnir völdu sér milli bygginganna. Þá loks var ráðist í göngustígagerðina. Stjórnendum skólans hafði tekist að færa framtíðina til nútímans. Í vikunni tókst þeim sem koma að stjórn Reykjavíkur að sýna okkur hvernig framtíð höfuðborgarinnar getur orðið. Í niðurstöðum alþjóðlegu hugmyndasamkeppninnar um Vatnsmýrina er ekki horft í baksýnisspegilinn. Í keppnislýsingu samkeppninnar var það skilið eftir galopið hvort flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni eða yrði þar um kyrrt. Það er lýsandi að í fyrstu umferð gerði aðeins ein tillaga af 136 ráð fyrir flugvellinum áfram. Og í annarri umferð féll höfundur hennar frá þeirri útfærslu. Ákveðinn ótti við hvað kæmi í staðinn fyrir flugvöllinn hefur lengi bærst meðal þeirra sem vilja hann burt. Og það ekki að ástæðulausu. Sporin hræða. Sú Benidorm norðursins, sem risin er við Skúlagötu, hefur ekki beinlínis fyllt mann bjartsýni, né heldur framhaldið við Borgartún þar sem kassar í miðju bílastæði eru leiðarminnið. Vinningstillaga Skotans Graeme Massie um Vatnsmýrina eyðir þessum ótta. Hún kemur eins og ferskur andblær inn í þá skipulagshugsun sem hefur ráðið ríkjum í Reykjavík undanfarna áratugi. Fegurðin í tillögunni er ekki síst sú að hún byggir að stóru leyti á sömu grunnhugmynd og er að baki borgarskipulaginu frá því 1927, sem miðaði að því að Reykjavík yrði borg í evrópskum stíl með randbyggðum nokkurra hæða húsum. Ef tillaga Massie verður að veruleika bjargar hún Reykjavík frá þeim örlögum að breytast í bíla- og úthverfaborg á bandarískan máta. Mikil þverpólitísk samstaða var meðal meirihluta borgarfulltrúa um að taka af skarið um framtíð Vatnsmýrarinnar á kjörtímabilinu. Nýr meirihluti hefur aðra stefnu í fyrsta sæti í málefnasamningi sínum. Þar seldu sjálfstæðismenn sig undir vilja Ólafs F. Magnússonar. Það yrði mikið slys ef einum borgarfulltrúa af fimmtán tækist að tefja þetta mál í krafti valdataflsins í Ráðhúsinu. Við megum engan tíma missa. Það þarf að taka u-beygju frá úthverfaskipulaginu sem nú blasir við í borginni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Vanvirðing við einkaframtakið og verðmætasköpun Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Með baunabyssu í kennaraverkfalli Ólafur Hauksson Skoðun Við þurfum að tala um Bálstofuna Matthías Kormáksson Skoðun Vegið að framtíð ungs vísindafólks á Íslandi Katrín Möller,Svava Dögg Jónsdóttir Skoðun Verðum að rannsaka hvað gerðist í Covid Hildur Þórðardóttir Skoðun Samfylkingin ætlar ekki að hækka tekjuskatt Alma D. Möller Skoðun Það þarf meiri töffara í okkur Davíð Már Sigurðsson Skoðun Treystir þú konum? Hópur 72 kvenna úr sex stjórnmálaflokkum Skoðun Á að banna rauða jólasveininn? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun
Í grófum dráttum má segja að stjórnendur séu af tveimur gerðum. Annars vegar þeir sem taka ákvarðanir út frá því hvernig hlutirnir hafa alltaf verið, og svo hinir sem reyna að sjá nokkra leiki fram í tímann og ákveða kúrsinn eftir því. Fyrri aðferðina má kenna við baksýnisspegilinn og hún hefur ýmsa kosti. Hún byggir á reynslu og getur forðað mistökum. Gallinn er sá að hún er í eðli sínu mjög íhaldssöm og svo eiga hlutirnir til að taka breytingum og fortíðin er þá alls ekki besti leiðarvísirinn. Síðari aðferðin byggir á því að sjá fyrir sér framtíðina og helst færa hana til nútímans. Þetta er vissulega áhættusamari aðferð en sú sem byggir á baksýnisspeglinum. Ef vel tekst til er hún hins vegar bæði margfalt líklegri til árangurs en ekki síður til að forðast dýrkeypt mistök. Lítil dæmisaga sem Moshe Rubenstein, prófessor við UCLA, sagði á námskeiði í Háskólanum í Reykjavík fyrir nokkrum árum fangar vel framtíðarhugsunina: Háskóli einn í Bandaríkjunum reisti nokkrar nýjar byggingar á svæði sínu. Þegar framkvæmdum var lokið var ákveðið að leggja ekki göngustíga til að tengja nýju húsin. Þess í stað var svæðið milli þeirra sléttað. Að nokkrum vikum liðnum lá ljóst fyrir hvað leiðir stúdentarnir völdu sér milli bygginganna. Þá loks var ráðist í göngustígagerðina. Stjórnendum skólans hafði tekist að færa framtíðina til nútímans. Í vikunni tókst þeim sem koma að stjórn Reykjavíkur að sýna okkur hvernig framtíð höfuðborgarinnar getur orðið. Í niðurstöðum alþjóðlegu hugmyndasamkeppninnar um Vatnsmýrina er ekki horft í baksýnisspegilinn. Í keppnislýsingu samkeppninnar var það skilið eftir galopið hvort flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni eða yrði þar um kyrrt. Það er lýsandi að í fyrstu umferð gerði aðeins ein tillaga af 136 ráð fyrir flugvellinum áfram. Og í annarri umferð féll höfundur hennar frá þeirri útfærslu. Ákveðinn ótti við hvað kæmi í staðinn fyrir flugvöllinn hefur lengi bærst meðal þeirra sem vilja hann burt. Og það ekki að ástæðulausu. Sporin hræða. Sú Benidorm norðursins, sem risin er við Skúlagötu, hefur ekki beinlínis fyllt mann bjartsýni, né heldur framhaldið við Borgartún þar sem kassar í miðju bílastæði eru leiðarminnið. Vinningstillaga Skotans Graeme Massie um Vatnsmýrina eyðir þessum ótta. Hún kemur eins og ferskur andblær inn í þá skipulagshugsun sem hefur ráðið ríkjum í Reykjavík undanfarna áratugi. Fegurðin í tillögunni er ekki síst sú að hún byggir að stóru leyti á sömu grunnhugmynd og er að baki borgarskipulaginu frá því 1927, sem miðaði að því að Reykjavík yrði borg í evrópskum stíl með randbyggðum nokkurra hæða húsum. Ef tillaga Massie verður að veruleika bjargar hún Reykjavík frá þeim örlögum að breytast í bíla- og úthverfaborg á bandarískan máta. Mikil þverpólitísk samstaða var meðal meirihluta borgarfulltrúa um að taka af skarið um framtíð Vatnsmýrarinnar á kjörtímabilinu. Nýr meirihluti hefur aðra stefnu í fyrsta sæti í málefnasamningi sínum. Þar seldu sjálfstæðismenn sig undir vilja Ólafs F. Magnússonar. Það yrði mikið slys ef einum borgarfulltrúa af fimmtán tækist að tefja þetta mál í krafti valdataflsins í Ráðhúsinu. Við megum engan tíma missa. Það þarf að taka u-beygju frá úthverfaskipulaginu sem nú blasir við í borginni.