Tónlist

Spila með Lúðrasveit verkalýðsins á afmæli sínu

Villi naglbítur hafði samband við Lúðrasveit verkalýðsins sem var til í stuðið. Fréttablaðið/Rósa
Villi naglbítur hafði samband við Lúðrasveit verkalýðsins sem var til í stuðið. Fréttablaðið/Rósa

200.000 naglbítar fagna tíu ára útgáfuafmæli sínu í haust. Áfanganum verður fagnað með eftirminnilegum hætti.

„Ég er búinn að vera með þetta í maganum í nokkur ár. Það eru allir búnir að vera að vinna með Sinfó, Gospelkórnum eða einhverjum big böndum, og mér fannst geðveikt töff að Naglbítar og Lúðrasveit verkalýðsins myndu slá saman í púkk. Nöfnin passa líka svo vel saman - 200.000 naglbítar og Lúðrasveit verkalýðsins - rosalega karlmannlegt eitthvað."

Hér talar Villi Naglbítur um samstarf hljómveitanna tveggja, rokktríósins og 40 manna lúðrasveitarinnar. Í tilefni af tíu ára afmæli fyrstu plötu Naglbítanna - og 15 ára hljómsveitarafmæli - verða tíu Naglbítalög af plötunum þeirra þremur útsett upp á nýtt fyrir lúðrasveit og rokktríó. Útkoman verður svo gefin út á plötu í haust og tónleikar haldnir í kjölfarið. Þá ætlar Heimir Freyr Hlöðversson að gera heimildarmynd um allt ferlið.

„Ég er búinn að heyra fyrstu lögin og sat bara með gæsahúð, þetta var svo þungt, kraftmikið og æðislegt," segir Villi. „Ég spurði sjálfan mig hvort þessi tónlist væri í alvörunni eftir mig."

Það er annars að frétta að Villi segist vera að læra að vera pabbi um þessar mundir því honum fæddist sonur fyrir þremur mánuðum. Og svo eru það dómgæslustörf í Bandinu hans Bubba. „Það er rosalega skemmtilegt. Vinur minn benti mér á að einhverjar kerlingar hafi verið að hneyklast á mér á blogginu fyrir að muna ekki nöfnin á keppendunum. Hvers vegna ætti ég að hlusta á fólk sem hefur ekki afrekað annað en að kaupa sér tölvur til að geta skrifað um það sem aðrir eru að gera? En jæja, ég hlýt að geta munað nöfnin á söngvurunum fyrir næsta þátt, allavega nöfnin á þeim sem geta eitthvað. Það er gaman að vinna með Birni Jörundi og Bubba. Hann er fínn húsbóndi, skemmtilegur og almennilegur og alltaf segjandi sögur. Það eru margir flottir söngvarar að keppa svo ég hlakka mikið til að vera í þættinum næstu vikurnar." gunnarh@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.