Í bráð og lengd Þorsteinn Pálsson skrifar 27. mars 2008 06:00 Vaxtahækkun Seðlabankans og ráðstöfunum hans til þess að auka lausafé á fjármálamarkaðnum var yfirleitt mætt á fremur jákvæðan hátt. Samtímis höfðu hræringar á erlendum fjármálamörkuðum jákvæð áhrif bæði á gengi hlutabréfa og krónunnar. Með vissum hætti má þó segja að ákvarðanir Seðlabankans gangi hvor í sína áttina. Annarri er ætlað að draga úr útlánum en hinni að greiða fyrir þeim. Við ríkjandi aðstæður var mikilvægast að greiða fyrir lánastarfsemi bankanna. Sú ákvörðun Seðlabankans var bæði tímabær og þýðingarmikil. Hún hafði ótvírætt jákvæð áhrif í þá veru að auka trú á virkni fjármálakerfisins og stuðla að viðvarandi verðmætasköpun í þjóðarbúskapnum. Meiri vafi er um gildi vaxtahækkunarinnar. Vera má að þýðing hennar felist fyrst og fremst í því að sýna að bankastjórnin sé sjálfri sér samkvæm. Vandi Seðlabankans er einkum fólginn í því að hann hefur ekki getað sýnt fram á að hann ráði yfir þeim meðulum sem duga til að geta framfylgt þeirri stöðugleikastefnu í peningamálum sem ákveðin var 2001. Seðlabankinn hefur fram til þessa sagt að gengi krónunnar ætti að lækka þegar liði á árið. Þegar það gerist fyrr og hraðar en bankinn gerði ráð fyrir segir hann að breytingin þurfi að ganga til baka. Þessi misvísandi skilaboð kalla á nánari útskýringar. Er markmiðið að freista þess að hækka gengi krónunnar með vöxtum sem engin verðmætasköpun stendur undir? Leiðir það ekki til óraunhæfrar eftirspurnar og viðskiptahalla? Ýtir það ekki undir verðbólgu til lengri tíma? Er einhver önnur leið til að styrkja krónuna með raunverulegum hætti en að auka verðmætasköpun í þjóðarbúskapnum? Ljóst er að efnahagsþrautirnar sem nú blasa við væru mun þyngri ef fjárfesting í stórvirkjunum og orkufrekum iðnaði væri ekki að skila nýjum tekjum inn í hagkerfið á þessu ári. Mikilvægt er að jafnt og þétt sé haldið áfram á þeirri braut. Jákvæð skilaboð berast þar um frá fjármálaráðuneytinu en neikvæð frá umhverfisráðuneytinu. Sú misvísun er slæm. Seðlabankinn gefur nú til kynna að hann ætli að taka á þeim innlendu aðilum sem hugsanlega hafa haft áhrif til lækkunar á gengi krónunnar með spákaupmennsku. Skiptir máli hverjir það eru sem slík viðskipti stunda? Er verra að menn styrki stöðu sína með þessum hætti ef þeir eru Íslendingar en útlendingar? Eða er slíkum athugasemdum einungis ætlað að draga athyglina frá raunverulegum vanda á þessu sviði? Hér skuldar bankinn skýringar. Menn vita að íslensku bankarnir hvíla á góðum undirstöðum. Á hinn bóginn þurfti ráðstafanir til að greiða fyrir lánsviðskiptum vegna alþjóðlegrar lausafjárkreppu. Reikna verður með frekari aðgerðum á því sviði. Þetta eru traustvekjandi og uppbyggjandi viðbrögð. En eftir stendur að samtímis þarf að leggja línur um peningamálastefnu sem er líkleg til að tryggja sambærilegan stöðugleika og helstu samkeppnis- og viðskiptalöndin njóta. Forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar hagfræðisviðs Seðlabankans sagði í háskólafyrirlestri í síðustu viku að niðurstöður rannsókna sem hann hefur gert bentu til að með aðild að Myntbandalagi Evrópu mætti ná betri tökum á verðbólgu hér en vænta mætti með umbótum á peningastefnunni. Sú niðurstaða er ekki umhugsunarefni fyrir framtíðina. Hún kallar á tafarlausa stefnumótun fyrir framtíðina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun
Vaxtahækkun Seðlabankans og ráðstöfunum hans til þess að auka lausafé á fjármálamarkaðnum var yfirleitt mætt á fremur jákvæðan hátt. Samtímis höfðu hræringar á erlendum fjármálamörkuðum jákvæð áhrif bæði á gengi hlutabréfa og krónunnar. Með vissum hætti má þó segja að ákvarðanir Seðlabankans gangi hvor í sína áttina. Annarri er ætlað að draga úr útlánum en hinni að greiða fyrir þeim. Við ríkjandi aðstæður var mikilvægast að greiða fyrir lánastarfsemi bankanna. Sú ákvörðun Seðlabankans var bæði tímabær og þýðingarmikil. Hún hafði ótvírætt jákvæð áhrif í þá veru að auka trú á virkni fjármálakerfisins og stuðla að viðvarandi verðmætasköpun í þjóðarbúskapnum. Meiri vafi er um gildi vaxtahækkunarinnar. Vera má að þýðing hennar felist fyrst og fremst í því að sýna að bankastjórnin sé sjálfri sér samkvæm. Vandi Seðlabankans er einkum fólginn í því að hann hefur ekki getað sýnt fram á að hann ráði yfir þeim meðulum sem duga til að geta framfylgt þeirri stöðugleikastefnu í peningamálum sem ákveðin var 2001. Seðlabankinn hefur fram til þessa sagt að gengi krónunnar ætti að lækka þegar liði á árið. Þegar það gerist fyrr og hraðar en bankinn gerði ráð fyrir segir hann að breytingin þurfi að ganga til baka. Þessi misvísandi skilaboð kalla á nánari útskýringar. Er markmiðið að freista þess að hækka gengi krónunnar með vöxtum sem engin verðmætasköpun stendur undir? Leiðir það ekki til óraunhæfrar eftirspurnar og viðskiptahalla? Ýtir það ekki undir verðbólgu til lengri tíma? Er einhver önnur leið til að styrkja krónuna með raunverulegum hætti en að auka verðmætasköpun í þjóðarbúskapnum? Ljóst er að efnahagsþrautirnar sem nú blasa við væru mun þyngri ef fjárfesting í stórvirkjunum og orkufrekum iðnaði væri ekki að skila nýjum tekjum inn í hagkerfið á þessu ári. Mikilvægt er að jafnt og þétt sé haldið áfram á þeirri braut. Jákvæð skilaboð berast þar um frá fjármálaráðuneytinu en neikvæð frá umhverfisráðuneytinu. Sú misvísun er slæm. Seðlabankinn gefur nú til kynna að hann ætli að taka á þeim innlendu aðilum sem hugsanlega hafa haft áhrif til lækkunar á gengi krónunnar með spákaupmennsku. Skiptir máli hverjir það eru sem slík viðskipti stunda? Er verra að menn styrki stöðu sína með þessum hætti ef þeir eru Íslendingar en útlendingar? Eða er slíkum athugasemdum einungis ætlað að draga athyglina frá raunverulegum vanda á þessu sviði? Hér skuldar bankinn skýringar. Menn vita að íslensku bankarnir hvíla á góðum undirstöðum. Á hinn bóginn þurfti ráðstafanir til að greiða fyrir lánsviðskiptum vegna alþjóðlegrar lausafjárkreppu. Reikna verður með frekari aðgerðum á því sviði. Þetta eru traustvekjandi og uppbyggjandi viðbrögð. En eftir stendur að samtímis þarf að leggja línur um peningamálastefnu sem er líkleg til að tryggja sambærilegan stöðugleika og helstu samkeppnis- og viðskiptalöndin njóta. Forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar hagfræðisviðs Seðlabankans sagði í háskólafyrirlestri í síðustu viku að niðurstöður rannsókna sem hann hefur gert bentu til að með aðild að Myntbandalagi Evrópu mætti ná betri tökum á verðbólgu hér en vænta mætti með umbótum á peningastefnunni. Sú niðurstaða er ekki umhugsunarefni fyrir framtíðina. Hún kallar á tafarlausa stefnumótun fyrir framtíðina.