Menning

Tónlistardagar Dómkirkjunnar

Tónlist Hugi Guðmundsson tónskáld hefur samið verk fyrir Dómkórinn.
Tónlist Hugi Guðmundsson tónskáld hefur samið verk fyrir Dómkórinn.

Allt frá árinu 1982 hafa Tónlistardagar Dómkirkjunnar verið fastur liður í menningarlífi Reykjavíkur á haustdögum. Það er Dómkórinn og stjórnandi hans, Marteinn H. Friðriksson dómorganisti, sem standa fyrir Tónlistardögunum. Um er að ræða röð tónleika þar sem meðal annars er frumflutt nýtt verk sem er sérstaklega samið fyrir Tónlistardagana. Oftast hafa verið samin kórverk fyrir Dómkórinn, en þess eru einnig dæmi að samin hafi verið orgelverk.

Að þessu sinni hefjast Tónlistardagarnir með hefðbundnum hætti með tónleikum í Dómkirkjunni á laugardag 25. október kl. 17. Þar frumflytur Dómkórinn kórverkið Aeterna lux divinitas eftir gest Tónlistardaganna, Huga Guðmundsson tónskáld, en auk þess verður flutt kór-, einsöngs- og orgeltónlist eftir tékkneska tónskáldið Petr Eben sem lést fyrr á þessu ári en hann samdi á sínum tíma verk fyrir Dómkórinn. Auk Dómkórsins og Marteins tekur Anna Sigríður Helgadóttir altsöngkona þátt í þessum tónleikum. Daginn eftir, sunnudaginn 26. október, verður verk Huga endurflutt í hátíðarmessu á kirkjuvígsludegi Dómkirkjunnar en henni er að vanda útvarpað á Rás 1 í Ríkis­útvarpinu. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×