Íslenski boltinn

Willum: Fínn bragur á liðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals.
Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals.
Willum Þór Þórsson var vitanlega kampakátur með vortitlana tvo sem liðið hefur nú tryggt sér á síðustu dögum.

Á fimmtudaginn varð Valur Lengjubikarmeistari karla eftir sigur á Fram í úrslitaleik og nú í kvöld meistarar meistaranna eftir sigur á bikarmeisturum FH.

Willum er þjálfari Vals og sagði að sínir menn hefðu gert vel með því að standa í grjóthörðu liði FH eins og hann orðaði það.

„FH-ingar mættu mjög öflugir til leiks og ætluðu að senda ákveðin skilaboð sem þeir gerðu vissulega með spilamennsku sinni."

„En ég held að við höfum sýnt að það sé fínn bragur á liðinu en við verðum að átta okkur á því að nú er þessu undirbúningstímabili lokið og Íslandsmótið hefst fyrst um næstu helgi. Við erum ekki búnir að fá nein stig í því móti."

Svo gæti farið að hann muni strax lenda í vandræðum með sóknarmenn því Dennis Bo Mortensen þurfti að fara snemma meiddur af velli.

Þá hefur Helgi Sigurðsson ekki getað spilað með liðinu að undanförnu vegna meiðsla en hann mun þó allur að vera að koma til.

„Dennis fékk högg á hnéð og er maður auðvitað alltaf smeykur við slík meiðsli. Hann og Helgi eru báðir mjög sterkir leikmenn en það sannaði sig í þessum leik að það kemur maður í manns stað. Við verðum bara að takast á við stöðuna eins og hún er."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×