Erlent

Kínverjar gera gagnárás

Óli Tynes skrifar
Jin Jing, "engillinn í hjólastólnum."
Jin Jing, "engillinn í hjólastólnum."

Kínverskir netverjar hafa hafið herferð gegn frönskum vörum og fyrirtækjum vegna mótmælanna sem brutust út þegar farið var með ólympíukyndilinn um París í síðustu viku.

Kínverskir neytendur eru hvattir til að sniðganga franskar vörur, sérstaklegfa frá verslanakeðjunni Carrefour. Carrefour rekur um 400 verslanir í Kína. Á netinu er keðjan sökuð um að styðja Dalai Lama, leiðtoga Tíbeta, frárhagslega.

Ferð kyndilsins var einnig trufluð vegna mótmæla í Lundúnum og San Francisco. París fangaði hinsvegar hugi Kínverja sérstaklega vegna þess að þar reyndi kínversk íþróttakona í hjólastól að verja kyndilinn fyrir mótmælendum.

Jin Jing er 27 ára gömul skylmingastjarna sem hefur keppt á Ólympíuleikum fatlaðra. Hún er nú orðin þjóðhetja í Kína og er kölluð engillinn í hjólastólnum.

Carrefour hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er neitað að keðjan hafi haft nokkur afskipti af kínverskum innanríkismálum.

Fyrirtækið segist frá upphafi hafa stutt það að Ólympíuleikarnir yrðu haldnir í Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×