Skuggi Skuggason í Skuggasundi Þráinn Bertelsson skrifar 7. júlí 2008 06:00 Ég hélt að sá tími myndi aldrei koma að ég þyrfti að fara á mótmælafund til að biðja íslensk yfirvöld að stilla sig um að ata hendur sínar saklausu blóði - en það átti fyrir mér að liggja að fara í mótmælastöðu upp í Skuggasund, þar sem dómsmálaráðherra hefur skrifstofu. Ég er ekki að grínast. Dómsmálaráðuneyti Íslands stendur við Skuggasund. Sá úrskurður að flytja úr landi - frá eiginkonu og nýfæddu barni - mann sem á yfir höfði sér að verða drepinn í heimalandi sínu er ógnvænlegur. Ekki síst vegna þess að huggun mín og margra annarra síðustu hálfa öld hefur verið sú að þótt Flokkurinn sem mótað hefur íslenskt þjóðfélag víli ekki fyrir sér að tortryggja, uppnefna, njósna um, hefta eða eyðileggja starfsframa þeirra sem þora að setja sig upp á móti vilja hans séu menn þó alltént ekki í beinni lífshættu. Með orðinu „uppnefna" á ég við það meiðyrði að kalla andstæðinga sína „kommúnista". Aðferð sem gaf góða raun í skammvinnu galdrafári McCarthys í Bandaríkjunum. Nú er svo komið að Flokkurinn virðist ekki lengur víla það fyrir sér að senda saklaust fólk í böðulshendur. Úr því að „Lebensraum" er orðið svona takmarkað á Íslandi vil ég gera stjórnvöldum það tilboð að flytja mig til Ítalíu og bjóða mig fram sem gísl í staðinn fyrir Paul Ramses, svo að hann geti fengið að sjá litla barnið sitt aftur, en ég komist út úr skugga hinnar helbláu handar. Nýjasta hugsjón Flokksins er að leynileg lögregla fái „framvirkar rannsóknarheimildir". Sem sé heimildir til að rannsaka manneskjur eftir geðþótta án þess að nokkur grunur liggi fyrir um að þær hafi gerst brotlegar við lög eða hafi lögbrot í hyggju. Ég veit ekki af hverju fólk kaus Flokkinn, en það var ekki til þess arna sem þjóðin veitti Samfylkingunni það umboð sem hún hefur. Ég mótmæli mannhatri og miskunnarleysi í nafni þeirra kynslóða sem að mér standa og hafa lifað og dáið frá landnámstíð í trú á frelsi og framtíð þessa lands og allra heimsins barna. Allar komu þær kynslóðir naktar í heiminn og enginn krafði þær um vegabréf til að fá að lifa. Farðu burt, Skuggi Skuggason í Skuggasundi. Farðu burt, helbláa hönd. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þráinn Bertelsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Ég hélt að sá tími myndi aldrei koma að ég þyrfti að fara á mótmælafund til að biðja íslensk yfirvöld að stilla sig um að ata hendur sínar saklausu blóði - en það átti fyrir mér að liggja að fara í mótmælastöðu upp í Skuggasund, þar sem dómsmálaráðherra hefur skrifstofu. Ég er ekki að grínast. Dómsmálaráðuneyti Íslands stendur við Skuggasund. Sá úrskurður að flytja úr landi - frá eiginkonu og nýfæddu barni - mann sem á yfir höfði sér að verða drepinn í heimalandi sínu er ógnvænlegur. Ekki síst vegna þess að huggun mín og margra annarra síðustu hálfa öld hefur verið sú að þótt Flokkurinn sem mótað hefur íslenskt þjóðfélag víli ekki fyrir sér að tortryggja, uppnefna, njósna um, hefta eða eyðileggja starfsframa þeirra sem þora að setja sig upp á móti vilja hans séu menn þó alltént ekki í beinni lífshættu. Með orðinu „uppnefna" á ég við það meiðyrði að kalla andstæðinga sína „kommúnista". Aðferð sem gaf góða raun í skammvinnu galdrafári McCarthys í Bandaríkjunum. Nú er svo komið að Flokkurinn virðist ekki lengur víla það fyrir sér að senda saklaust fólk í böðulshendur. Úr því að „Lebensraum" er orðið svona takmarkað á Íslandi vil ég gera stjórnvöldum það tilboð að flytja mig til Ítalíu og bjóða mig fram sem gísl í staðinn fyrir Paul Ramses, svo að hann geti fengið að sjá litla barnið sitt aftur, en ég komist út úr skugga hinnar helbláu handar. Nýjasta hugsjón Flokksins er að leynileg lögregla fái „framvirkar rannsóknarheimildir". Sem sé heimildir til að rannsaka manneskjur eftir geðþótta án þess að nokkur grunur liggi fyrir um að þær hafi gerst brotlegar við lög eða hafi lögbrot í hyggju. Ég veit ekki af hverju fólk kaus Flokkinn, en það var ekki til þess arna sem þjóðin veitti Samfylkingunni það umboð sem hún hefur. Ég mótmæli mannhatri og miskunnarleysi í nafni þeirra kynslóða sem að mér standa og hafa lifað og dáið frá landnámstíð í trú á frelsi og framtíð þessa lands og allra heimsins barna. Allar komu þær kynslóðir naktar í heiminn og enginn krafði þær um vegabréf til að fá að lifa. Farðu burt, Skuggi Skuggason í Skuggasundi. Farðu burt, helbláa hönd.