Íslenski boltinn

Víkingur lagði Stjörnuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frá leik með Víkingi í Landsbankadeild karla á síðustu leiktíð.
Frá leik með Víkingi í Landsbankadeild karla á síðustu leiktíð.
Fjórir leikir fóru fram í 1. deild karla í kvöld. Víkingur frá Reykjavík rak af sér slyðruorðið og lagði Stjörnuna á útivelli í kvöld.

Stjörnumenn komust yfir með marki Ellerts Hreinssonar á fimmtándu mínútu en Þórhallur Örn Hinriksson jafnaði metin áður en fyrri hálfleik lauk.

Brynjar Orri Bjarnason skoraði svo sigurmark Víkinga fimm mínútum fyrir leikslok.

Topplið ÍBV komst aftur á sigurbraut eftir 2-1 sigur á Njarðvík á heimavelli. ÍBV tapaði í síðustu umferð sínum fyrstu stigum á tímabilinu en hafa endurheimt sex stiga forystu á Selfyssinga um stundarsakir að minnsta kosti.

Ófarir botnliðs Leiknis héldu áfram í kvöld er liðið tapaði fyrir Haukum á heimavelli í kvöld, 3-2.

Haukar komust í 3-0 forystu með tveimur mörkum frá Denis Curic og einu frá Ásgeiri Þór Ingólfssyni. Fannar Þór Arnarsson og Kári Einarsson minnkuðu muninn fyrir Leiknu með mínútu millibili skömmu fyrir leikslok.

Að síðustu tryggði Arnar Már Guðjónsson KA-mönnum sigur á grönnum sínum í Þór með marki í uppbótartíma leiksins.

Stjarnan er í þriðja sæti deildarinnar með sautján stig, Haukar koma næstir með fimmtán og svo Víkingur frá Reykjavík með þrettán stig. KA er í sjötta sæti með ellefu stig, Þór í því áttunda með níu stig og Njarðvík í tíunda sæti með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×