Íslenski boltinn

Pétur: Ósanngjarnt að tapa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari og Pétur Pétursson aðstoðarmaður hans.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari og Pétur Pétursson aðstoðarmaður hans. Mynd/E. Stefán
Pétur Pétursson aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins sagði að sigur Wales hefði verið ósanngjarn.

Ísland mætti Wales í æfingaleik á Laugardalsvellinum í kvöld og beið 1-0 ósigur. Ched Evans skoraði markið í lok fyrri hálfleiks.

„Ég er ekki sáttur við að tapa leiknum. Við lögðum upp með að reyna spila boltanum og þora að láta hann ganga inn á miðjuna og þaðan út á kantana. Það gekk ágætlega að mörgu leyti. Við gáfum alls ekki mörg færi á okkur og fengum þrjú mjög góð færi í leiknum. Það var því ekki sanngjarnt að tapa þessum leik."

Hann hrósaði miðvallarparinu unga, Aroni Einari Gunnarssyni og Eggerti Jónssyni, mikið. „Þetta eru tveir ungir menn sem stóðu sig frábærlega í dag. Þegar Toshack breytti um taktík og bætti við manni á miðjuna flæktist þetta aðeins málin fyrir þá en þeir komust mjög vel frá verkefninu."

Pétur sagði einnig að Stefán Þórðarson hafi staðið sig vel í leiknum, sérstaklega í upphafi leiksins.

„Frammistaða hans kom okkur ekki á óvart. Við erum búnir að fylgjast með mörgum framerhjum og okkur fannst hann henta vel í þennan leik. Við þurfum að eiga framherja sem þorir að vera með boltann og spila honum út á kantana."

Ísland hefur leikið marga æfingaleiki í vetur og Pétur sagði að þessi í kvöld hafi nýst liðinu vel.

„Eins og Ólafur (Jóhannesson landsliðsþjálfari) hefur sagt þurfum við að vera með 25-30 leikmenn á okkar snærum sem eru tilbúnir þegar kallið kemur. Það duttu út fjórir varnarmenn fyrir þennan leik og við gátum sett aðra menn beint inn í leikinn og þeir vissu strax hvað þeir áttu að gera."

„Þessir æfingaleikir hafa hentað vel upp á það að gera og höfum við getað skoðað marga leikinn. Við munum halda áfram að fylgjast með leikmönnum hér heima fram að næsta leik enda eru margir leikmenn hér á landi sem eiga erindi í landsliðið. Það eru ekki bara atvinnumennirnir sem eiga möguleika á landsliðssæti."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×