Íslenski boltinn

Sigurður Ragnar: Stóðum okkur virkilega vel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson á æfingu með íslenska landsliðinu.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson á æfingu með íslenska landsliðinu.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari sagði eftir leik að hann væri mjög ánægður með íslenska landsliðið sem vann 5-0 sigur á Slóvenum í dag.

„Við stóðum okkur virkilega vel. Við skoruðum fimm mörk og höldum hreinu. Þær náðu lítið að ógna markinu okkar."

Ísland hefur nú unnið fimm af sex leikjum sínum í undankeppni EM og fengið á sig aðeins tvö mörk en skorað nítján. Eini tapleikurinn og einu mörkin sem Ísland fékk á sig var gegn Slóveníu ytra í fyrra.

„Lið Slóveníu er mikið breytt frá því í fyrra. Við sendum njósnara á leik þeirra gegn Grikkjum og þær spiluðu mjög svipað í dag og þá. Við þekktum svo sem ekki mikið til þessa liðs en við leystum þetta mjög vel að mér fannst."

Ísland er nú komið með fimmtán stig í riðli sínum í undankeppni EM sem fer fram í Finnlandi á næsta ári. Liðið er í öðru sæti og á leik til góða á Frakka sem eru í efsta sæti. Með sigri á Grikkjum á fimmtudaginn dugir Íslandi jafntefli í lokaleiknum gegn Frökkum ytra í haust til að tryggja sér sigur í riðlinum og þar með farseiðilinn til Finnlands.

Ísland er þó með sigrinum í dag búið að tryggja sér sæti í umspili um laust sæti á EM í Finnlandi.

Fari svo að Ísland tapi í Frakklandi skiptir þó máli að ná í sem flest stig.

„Bestu liðin í öðru sæti riðlanna munu mæta lökustu liðunum í þriðja sæti. Stigafjöldin og markatalan skiptir því gríðarlega miklu máli. Ef við vinnum á fimmtudaginn ættum við að vera í efri kantinum en það eru nokkrir leikir eftir í keppninni og því of snemmt að fullyrða um það. Við þurfum því nauðsynlega að vinna Grikkja og þá með sem allra stærstum mun."

Hann hefur engar áhyggjur á að koma leikmönnum aftur á jörðina.

„Ég held að það verði ekkert mál. Við höfum spilað mjög vel í öllum leikjum okkar í ár og við munum halda því áfram. Þá gengur þetta allt saman upp hjá okkur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×