Menning

Ímyndun, ímynd og sjálfsmynd

Hjálmar Sveinsson leiðir skoðanaskipti á fundi í kvöld.
Hjálmar Sveinsson leiðir skoðanaskipti á fundi í kvöld.

Í kvöld heldur áfram umræðan um hvað við erum, hvað við viljum vera og hvað við þykjumst vera. Í ReykjavíkurAkademíunni Hringbraut 121, 4. hæð verður fundað um fallvaltar ímyndir lands og þjóðar eftir „hrunið".

Þátttakendur verða Árni Finnsson, Björn Friðfinnsson, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, Þorfinnur Ómarsson og Þorgerður Þorvaldsdóttir. Í stuttum erindum munu þátttakendur í umræðunum fjalla um hvernig ímyndir um Ísland hafa birst varðandi alþjóðaviðskipti og -stjórnmál, jafnréttismál, listir og menningu og ferðamál, hvernig brugðist hafi verið við þessum ímyndum og hvort og hvaða áhrif megi vænta að „hrunið" hafi á þessi viðhorf. Hjálmar Sveinsson hefur stjórn á umræðunni og gerir athugasemdir og stýrir almennum umræðum eftir erindin.

Nú er sá tími upprunninn að ræða verður hvað hefur ráðið í ímyndarsköpun þjóðarinnar: hvernig komum við fram á alþjóðavettvangi - hvað þykjumst við vera - og hvað erum við? Fundurinn í kvöld er einn af mörgum vettvöngum sem eru að opnast hvar sem menn koma saman og leiða þá fljótt hugann að því sem fór miður og hvað er þá til ráða.

Mikilvægasta umræða lýðveldistímans er hafin. Fundurinn hefst kl. 20 í kvöld og er áætlað að hann standi í tvær klukkustundir en umræðan heldur áfram.- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×