Erlent

Stífla að bresta í Kína

Búið er að flytja tvö hundruð þúsund manns af svæðinu fyrir neðan stöðuvatn sem myndaðist við jarðskjálftann í Sisjúan héraði í Kína þann tólfta þessa mánaðar.

Björgunarmenn hafa unnið án afláts við að koma fólki burt og að leiða vatn úr stöðuvatninu. En nú hefur þeim verið fyrirskipað að hafa sig á brott sömuleiðis.

Talið er líklegt að stöðuvatnið rjúfi stífluna á næstu dögum. Stíflan myndaðist þegar skriðuföll urðu við jarðskjálftann mikla fyrir tæpum þremur vikum.

Þó að tvö hundruð þúsund manns hafi farið burt af mesta hættusvæðinu þá ætla stjórnvöld að koma samtals einni komma þremur milljónum manna úr borginni Mianyang.

Ef stíflan í Tangijashan brestur munu ekki líða nema fimm til sex klukkustundir þar til vatnið fer yfir Mianyang.

Yfirvöld eru að koma upp flóttamannabúðum fyrir fólkið utan hættusvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×