Tvítug kona hefur verið handtekin í Horb-am-Neckar í Þýskalandi, grunuð um að hafa deytt nýfætt barn sitt með því að leggja það í frystihólfið á ísskáp sínum.
Lögreglan segir að konan haldi því fram að hún hafi talið að barnið væri dáið þegar hún setti það í frystinn. Krufning leiddi hinsvegar í ljós að það hafði verið lifandi.
Það voru ættingjar konunnar sem fundu litla líkið og fengu hana til þess að fara til lögreglunnar. Barnið hafði þá legið í frystinum í einar fjórar vikur.
Þjóðverjar eru slegnir yfir mörgum barnamorðum þar í landi. Nýlega var kona dæmd í fimmtán ára fangelsi fyrir að myrða átta nýfædd börn sín. Hún geymdi líkin í blómapottum og fiskabúri.