Íslenski boltinn

ÍH í slæmum málum vegna hegðunar þjálfarans

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Allt útlit er fyrir að ÍH missi sæti sitt í 2. deild karla eftir að liðinu var dæmdur 3-0 ósigur gegn Tindastóli í dag. Umræddur leikur var í lokaumferð deildarinnar og vann ÍH leikinn, 1-0.

Með sigrinum komst ÍH upp í 24 stig í deildinni og bjargaði sér þar með frá falli. Hins vegar er ljóst að samkvæmt úrskurðinum er ÍH með 21 stig og dugir það liðinu ekki til að halda sæti sínu í deildinni þar sem Hamar er með 22 stig. Hvergerðingar halda því sæti sínu í deildinni.

ÍH hefur þó fimm virka daga til að áfrýja dóminum og gæti því þetta mál dregist á langinn.

Tindastóll kærði úrslit leiksins þar sem forráðamönnum liðsins þótti afskipti þjálfarans, Mikaels Nikulássonar, of mikil af leiknum en hann tók út leikbann í leiknum.

ÍH mótmælti því ekki að Mikael hafi verið í leikbanni en þá sem leikmaður - ekki sem þjálfari. Engu að síður var Mikael á áhorfendasvæði á meðan leiknum stóð.

Þessu hafnar dómstóllinn og telur að Mikael hafi brotið reglugerð KSÍ, meðal annars þar sem hann var í vallarhúsi og starfsmannaaðstöðu innan við klukkustund fyrir leikinn og farið inn á völlinn í leikslok, áður en dómarar gengu til búningsklefa sinna.

ÍH var einnig sektað um 15 þúsund krónur vegna málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×