Menning

Selur ljósmyndir í Gleðibankanum

Opnar gleðibankann í Kolaportinu. Jóhannes heldur ljósmyndasýninguna Gleðibankann í Kolaportinu um helgina og sýnir 100 ljósmyndir sem voru allar teknar í fyrrasumar.
Fréttablaðið/Anton
Opnar gleðibankann í Kolaportinu. Jóhannes heldur ljósmyndasýninguna Gleðibankann í Kolaportinu um helgina og sýnir 100 ljósmyndir sem voru allar teknar í fyrrasumar. Fréttablaðið/Anton

„Ég hef alltaf þrjóskast við að taka á filmu þar sem mér finnst digital-myndavélarnar ekki skila sömu sál og filman," segir Jóhannes Kjartansson, ljósmyndari og grafískur hönnuður. Um helgina heldur hann sína þriðju ljósmyndasýningu sem haldin verður í Kolaportinu og ber heitið Gleðibankinn.

„Ég hef verið að taka myndir fyrir alvöru síðan 2005 og hef tekið hátt í 900 filmur á þessum þremur árum. Ég hef eytt í það minnsta 1.500.000 krónum í framköllun, sem er kannski ekki mjög skynsamleg fjárfesting, en ég hef samt alltaf verið sjúkur í að skipta krónunum mínum út fyrir ljósmyndir," útskýrir Jóhannes sem mun þó aðallega sýna nýlegar myndir á sýningunni um helgina.

„Þetta eru allt myndir sem höfðu safnast saman frá því síðasta sumar, en ég átti ekki pening til að framkalla fyrr en fyrir nokkrum dögum. Þetta eru aðallega andlitsmyndir og fólk að skemmta sér í bland við borgarlandslag. Myndirnar sýna gleðina sem einkenndi mannlífið í Reykjavík áður en gengið, brosin og bankarnir féllu og endurspegla svolítið bjartsýnina sem ríkti í sumar en er orðin svolítið kaldhæðnisleg núna," útskýrir Jóhannes.

„Á sýningunni verða 100 myndir svo það verður hægt að kaupa hlutabréf í Gleðibankanum á genginu 0,01 með því að kaupa mynd," segir Jóhannes að lokum. - ag








Fleiri fréttir

Sjá meira


×