Froskastríðið Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar 11. nóvember 2008 05:00 Er þessari ólíkindaþjóð viðbjargandi? Hún stekkur á hvert agn sem heimsbyggðin dregur yfir Atlantshafið, hvort sem það er Soda Stream eða flatskjáir og síðan þegar hún hefur kokgleypt það skammast hún sín fyrir bitann. Svo stekkur hún úr sjóstakknum þegar hún eygir von um betri veiði á öðrum miðum. Þá setur hún á sig bindið og selur verðbréf og norðurljós. Sjóferð sú endaði með því að stórþjóðir eru með háfinn á eftir okkur og ætla víst ekki að linna látum uns við verðum roð- og féflett. Og þá finnst okkur nú við hæfi að fara í sjóstakkinn aftur. Heill kór sérfræðinga hefur undanfarna daga verið að reyna að vísa okkur veginn í hremmingunum. Þeir hafa þó hingað til gert lítið annað en rugla mig í ríminu. Þar til á sunnudag en þá heyrði ég í einum sérfræðingnum enn. Hann var reyndar ekki að tala um okkur Íslendinga heldur ýmsar froskategundir. Þó að þessar verur hafi ekkert með bankahrunið að gera þá er saga þeirra slík að hún sannfærir mig um að við eigum eftir að komast í gegnum þetta og jafnvel nokkru ríkari en við vorum áður en þrautagangan hófst. Þessi sérfræðingur er David Attenborough og nálgun hans er afar athyglisverð. Hann gerir sér strax grein fyrir því hvaða líffærum, limum og eiginleikum hver froskur býr yfir og því næst spyr hann hvernig honum áskotnaðist það allt saman. Og alltaf er það sama sagan; þeir þróa þetta með sér til að ná í æti sem er þeim næstum jafn nauðsynlegt og flatskjárinn er okkur Íslendingum. Eins þurfa þeir svo að þróa með sér eiginleika til að komast undan öðrum dýrum svo þeir verði ekki sjálfir að bráð. Einir hafa reddað þessu með því að verða eitraðir en aðrir eru á litin eins og laufblöðin þar sem þeir dvelja löngum. Eins segja ævintýrin að þeir geti tekið stökkbreytingum ef vel er gert við þá en það er önnur saga. Þróunin er nefnilega örlát við þá sem stökkva á eftir freistingunni, aðlagast hratt og þurfa að koma sér undan öflugum andstæðingi. Eitthvað hljótum við því að hafa borið úr bítum sem kemur sér vel í þessum hremmingum. Og ef þær eru jafn herfilegar og Jón Baldvin segir þá verðum við kannski komin með væng á rófubeinið þegar þær eru afstaðnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Sigurður Eyjólfsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Er þessari ólíkindaþjóð viðbjargandi? Hún stekkur á hvert agn sem heimsbyggðin dregur yfir Atlantshafið, hvort sem það er Soda Stream eða flatskjáir og síðan þegar hún hefur kokgleypt það skammast hún sín fyrir bitann. Svo stekkur hún úr sjóstakknum þegar hún eygir von um betri veiði á öðrum miðum. Þá setur hún á sig bindið og selur verðbréf og norðurljós. Sjóferð sú endaði með því að stórþjóðir eru með háfinn á eftir okkur og ætla víst ekki að linna látum uns við verðum roð- og féflett. Og þá finnst okkur nú við hæfi að fara í sjóstakkinn aftur. Heill kór sérfræðinga hefur undanfarna daga verið að reyna að vísa okkur veginn í hremmingunum. Þeir hafa þó hingað til gert lítið annað en rugla mig í ríminu. Þar til á sunnudag en þá heyrði ég í einum sérfræðingnum enn. Hann var reyndar ekki að tala um okkur Íslendinga heldur ýmsar froskategundir. Þó að þessar verur hafi ekkert með bankahrunið að gera þá er saga þeirra slík að hún sannfærir mig um að við eigum eftir að komast í gegnum þetta og jafnvel nokkru ríkari en við vorum áður en þrautagangan hófst. Þessi sérfræðingur er David Attenborough og nálgun hans er afar athyglisverð. Hann gerir sér strax grein fyrir því hvaða líffærum, limum og eiginleikum hver froskur býr yfir og því næst spyr hann hvernig honum áskotnaðist það allt saman. Og alltaf er það sama sagan; þeir þróa þetta með sér til að ná í æti sem er þeim næstum jafn nauðsynlegt og flatskjárinn er okkur Íslendingum. Eins þurfa þeir svo að þróa með sér eiginleika til að komast undan öðrum dýrum svo þeir verði ekki sjálfir að bráð. Einir hafa reddað þessu með því að verða eitraðir en aðrir eru á litin eins og laufblöðin þar sem þeir dvelja löngum. Eins segja ævintýrin að þeir geti tekið stökkbreytingum ef vel er gert við þá en það er önnur saga. Þróunin er nefnilega örlát við þá sem stökkva á eftir freistingunni, aðlagast hratt og þurfa að koma sér undan öflugum andstæðingi. Eitthvað hljótum við því að hafa borið úr bítum sem kemur sér vel í þessum hremmingum. Og ef þær eru jafn herfilegar og Jón Baldvin segir þá verðum við kannski komin með væng á rófubeinið þegar þær eru afstaðnar.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun