Menning

Grín fyrir vitsmunaverur

Sverrir Björnsson hefur haldið úti myndasögunni Aukablaðinu frá árinu 2001. Nýverið kom út bók með Aukablaðinu sem kom út árin 2003-2008.
Sverrir Björnsson hefur haldið úti myndasögunni Aukablaðinu frá árinu 2001. Nýverið kom út bók með Aukablaðinu sem kom út árin 2003-2008. MYND/Fréttablaðið/GVA

Aukablaðið hefur komið út á netinu síðan 2001 og vakið athygli fyrir gagnrýnar og skemmtilegar teikningar. Höfundurinn Sverrir Björnsson segir Aukablaðið ágætis samtímaspegil.

„Þetta er unnið út frá gagnrýnu sjónarhorni og er oft á tíðum svolítið hvasst. Það er nú akkúrat það sem hefur skort í þjóðfélaginu undanfarið, að menn séu gagnrýnir. Það er helst að „cartoon-istar" hafi sinnt gagnrýninni en það hefði mátt vera meira af því á undangengnum árum. Ég myndi segja að þetta væri ágætis samfélagsspegill," segir Sverrir Björnsson, maðurinn á bak við Aukablaðið. Það hefur komið út á netinu, á Aukabladid.is, frá árinu 2001 og birtust teikningarnar um tíma í dagblaðinu 24 stundum. Fyrir skemmstu kom út Spannáll Aukablaðsins, bók sem inniheldur allar teikningarnar frá árunum 2003-2008.

Sverrir starfar sem hönnunarstjóri hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu. Hann segist hafa haft unun af því að teikna alla sína tíð og ræktaði áhugann mikið þegar hann stundaði nám í Myndlista- og handíðaskólanum. „Pólitísk list var manni mjög hugstæð á þessum tíma, þegar maður var róttækur. Ég hugsa að ef þeir atburðir sem Ísland gengur í gegnum nú hefðu verið í gangi þá, þá væri maður virkari með anarkistunum. Í staðinn hef ég bara verið friðsamur mótmælandi með trefil."

Upphaf Aukablaðsins má rekja til þess þegar Gísli J. Ástþórsson heimsótti Sverri á vinnustað hans og sá teikningar hans. „Hann vildi endilega að ég færi að birta teikningarnar mínar og hvatti mig áfram. Hann var reyndar svo stórtækur að hann vildi að ég myndi sigra heiminn. En fljótlega upp úr þessu varð Aukablaðið til," segir Sverrir.

Sverrir segir að allur gangur sé á því hvernig teikningar hans verði til. Ýmist komi teikningin sjálf fyrst eða þá fyrirsögnin á Aukablaðinu sjálfu. Hann segir að hugmyndirnar kvikni út frá umhverfinu. „Það getur verið sterk tilfinning fyrir einhverju, réttlætiskennd eða reiði yfir ástandinu. Hugmyndin er að vekja hughrif hjá fólki, helst svona „smile in the mind". Fólk þarf ekkert endilega að skella upp úr enda á að vera ákveðið „challenge" að skilja myndasögurnar. Fólk á líka að fá eitthvað út úr því að skilja þær. Ég hef því haldið því fram að Spannállinn sé tilvalin jólagjöf fyrir vitsmunaverur," segir Sverrir og hlær.

Sverrir hefur aldrei verið skráður höfundur fyrir myndasögum Aukablaðsins, þótt hann hafi ætíð verið ábyrgðarmaður þess. Höfundarnafnið er Dónald. „Já, það er nú bara nafn sem hefur fylgt mér nokkuð lengi og mér fannst tilvalið listamannsnafn. Konan mín kallaði mig Dónald þegar við vorum að byrja saman. Henni fannst svipurinn þesslegur!"

hdm@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×