Fastir pennar

Tortryggnin

Þorsteinn Pálsson skrifar

Eftir að íslenska krónan hrundi endanlega á haustdögum féllu viðskiptabankarnir. Flestir sáu hrun krónunnar fyrir. Færri vildu trúa að bankarnir fylgdu í kjölfarið. Hvernig sem því víkur við er það veruleiki sem ekki verður umflúinn.

Nútíma efnahagsstarfsemi þrífst hins vegar ekki án banka. Hlutirnir hefðu vissulega getað farið verr. Satt best að segja var það afrek að halda bönkunum opnum. Það voru snör og örugg handtök sem því réðu. Vandinn er samt sá að enn hefur ekki tekist að endurreisa bankakerfið á þann veg að það veiti fyrirtækjum og almenningi brýna lágmarksþjónustu. Í raun eru bankarnir ekki orðnir að virkum bönkum á ný.

Hættan á að bankarnir gætu ekki veitt nægu súrefni inn í atvinnulífið var kunn fyrir hrun krónunnar. Eftir hrun hennar er vandi fyrirtækjanna dýpri. Það sem verra er: Mörg skuldsett heimili eru í sömu sporum.

Ósanngjarnt væri að segja að ekkert hefði gerst í þeim tilgangi að koma til móts við þennan vanda fyrirtækja og heimila. Ýmislegt hefur þokast í áttina. Þeim athöfnum verður þó ekki líkt við snarræði. Margt ræður því. Gjaldeyrishöft og lánsfjárkeppa setja bönkunum þröngar skorður.

Hér kemur þó fleira til. Umræða síðustu vikna hefur alið af sér djúpstæða tortryggni. Hún er skiljanleg að ákveðnu marki. Engum vafa er þó undirorpið að þessi tortryggni hefur leitt til mikillar ákvörðunarfælni í nýju bönkunum. Hætt er við að það hik sé byrjað að bitna á hagsmunum bæði fyrirtækja og heimila.

Helsta ástæðan fyrir því að tortryggnin er farin að snúast gegn hagsmunum almennings er sú að of margir stjórnmálamenn hafa ekki haft þrek til þess að greina aðalatriði frá aukaatriðum og sannar sögur frá gróusögum í kjaftakvörn dægurumræðunnar. Þannig hafa þeir orðið gerendur í að magna tortryggnina upp.

Hver er afleiðingin? Bankarnir ættu að vera á hraðferð inn í það venjulega hlutverk sem slíkum fyrirtækjum er ætlað. Í stað þess er verulegur pólitískur þrýstingur á að þeir verði gerðir að einhvers konar pólitískum skömmtunarsjóðum. Allt er það gert í góðri meiningu undir merkjum jöfnuðar og réttlætis. En hætt er við að tortryggnin færi þjóðina fjær þeim góðu gildum.

Verði ekki höfð snör handtök við að veita lágmarks súrefni inn í atvinnufyrirtækin fara fleiri á hausinn, fleiri missa vinnuna, verðmætasköpunin minnkar, tekjustofnar velferðarþjónustunnar rýrna og fleiri missa húsnæðið en ella. Takist ekki að koma í veg fyrir þetta munu fáir líkja niðurstöðunum við jöfnuð og réttlæti þegar upp verður staðið.

Bankar eru ekki og eiga ekki að vera stjórnsýslustofnanir. Fyrir þá sök þarf að endurreisa venjubundna bankastarfsemi á grundvelli þeirra almennu leikreglna sem um slíka starfsemi gilda. Menn þurfa að læra af reynslunni. Útlánaþenslumistökin má ekki endurtaka. Tortryggnin má hins vegar ekki koma í veg fyrir að hjólin fari að snúast á ný.

Stjórnmálamenn bera mesta ábyrgð í þessu efni. Þeir þurfa bæði með ábyrgum málflutningi og ákvörðunum að sjá til þess að tortryggnin drepi ekki endurreisnina í dróma. Það er rík ábyrgð.






×