Erlent

Hvítabjörninn Knútur er geðveikur

Óli Tynes skrifar
Knútur er ekki lengur lítill og krúttlegur.
Knútur er ekki lengur lítill og krúttlegur.
Gæslumenn hvítabjarnarins Knúts segja að hann sé með geðbilun á háu stigi. Dýrageðlæknir hafi greint hann í janúar. Stjórnendur dýragarðsins í Berlín vilji halda því leyndu, og hafi hótað þeim brottrekstri ef þeir segi frá.

Dýragarðurinn græddi hundruð milljóna króna á Knúti þegar móðir hans hafnaði honum og starfsmenn dýragarðsins tóku að sér að mata hann og ala hann upp. Knútur þótti svo krúttlegur að fólk stóð marga klukkutíma í biðröðum til að sjá hann.

Nú er Knútur hinsvegar orðinn stór. Hann er ekki lengur lítill og sætur. Gæslumennirnir segja að Knútur hafi ofmetnast af allri athyglinni. Hann öskri af reiði og tryllingi ef hann hefur ekki nógu marga áhorfendur. Það á allt að snúast um hann sjálfan.

Og reiður fullorðinn hvítabjörn er ekkert lamb að leika sér við. Á því fengu að kenna stórir vatnakarfar sem voru í tjörn í búri hans. Knútur drap þá einn af öðrum. Ekki til þess að éta, hann bara tætti þá í sundur fyrir framan agndofa dýragarðsgesti.

Þess má geta að á sínum tíma mótmæltu dýravinir því harðlega að Knútur skyldi alinn upp hjá mönnum. Það væri gersamlega ónáttúrulegt fyrir grimmt veiðidýr, eins og hvítabirnir séu. Þeir teldu víst að björninn myndi bila á geðsmunum og sögðu réttast að drepa hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×