Erlent

Börnin úr kjallaranum gapandi af undrun yfir heiminum

Óli Tynes skrifar
Elísabet, móðir Felix og Stefáns.
Elísabet, móðir Felix og Stefáns.

Austurrískir lögregluþjónar hafa lýst því hvernig drengirnir tveir úr kjallaraprísundinni voru gapandi af undrun þegar þeir í fyrsta skipti fengu að sjá umheiminn.

Drengirnir heita Felix sem er fimm ára og Stefán sem er átján ára. Þeir hafa alið allan sinn aldur í gluggalausum kjallaranum. Það eina sem þeir höfðu séð af heiminum var í sjónvarpi.

Leopold Etz, lögregluvarðstjóri keyrði drengina á sjúkrahús.

"Þeir voru gapandi af undrun yfir umheiminum. Þetta var í fyrsta skipti sem þeir óku í bíl og þeir voru furðu lostnir yfir hraðanum og mjög spenntir. Sérstaklega Felix sem réði varla við sig.

Hann æpti af hrifningu þegar hann sá bíla koma á móti okkur. Hann og bróðir hans héldu sér fast þegar bíll fór framhjá því þeir héldu að það yrði árekstur.

Þegar við fórum með drengina heim af sjúkrahúsinu var komið myrkur og þeir voru stórhrifnir af bílljósunum sem voru allt í kringum okkur.

Þeir skríktu af ánægju, en stungu sér svo á bakvið sætin ef þeir héldu að við myndum klessa.

Það besta var þó þegar þeir sáu tunglið. Þeir urðu alveg bergnumdir. Þeir störðu á það og ýttu hvor við öðrum og bentu. Á öllum mínum árum sem lögreglumaður hef ég aldrei séð annað eins."

Lögreglumennirnir segja að Felix og Stefán sýni ýmis merki um fangavist sína. Þeir tjái sig til dæmis allt öðruvísi en eðlilegt sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×