Íslenski boltinn

Eiður og Margrét Lára knattspyrnumenn ársins

Margrét Lára Viðarsdóttir hefur sópað að sér verðlaunum síðustu misseri.
Margrét Lára Viðarsdóttir hefur sópað að sér verðlaunum síðustu misseri.

Eiður Smári Guðjohnsen og Margrét Lára Viðarsdóttir hafa verið útnefnd knattspyrnumenn ársins í karla- og kvennalfokki af Knattspyrnusambandi Íslands.

Það var leikmannaval KSÍ sem stóð að þessu vali í fimmta sinn, en að valinu koma fyrrum landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í hreyfingunni.

Veitt eru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hvorum flokki, en bæði Eiður Smári og Margrét Lára eru nú að taka við þessum verðlaunum í fjórða skipti.

Karlaflokkur:

Eiður Smári Guðjohnsen varð í öðru sæti spænsku deildarinnar með liði sínu Barcelona og komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu. Hann lék auk þess sex landsleiki og skoraði í þeim þrjú mörk og er markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi.

Í öðru sæti varð Veigar Páll Gunnarsson sem átti frábært ár með norska liðinu Stabæk og var lykilmaður í liðinu þegar það tryggði sér sinn fyrsta meistaratitil í haust. Hann tók þátt í sex landsleikjum og skoraði eitt mark.

Í þriðja sæti varð svo Grétar Rafn Steinsson sem gekk í raðir Bolton í byrjun árs og hefur átt fast sæti í byrjunarliðinu allar götur síðan. Hann lék fimm landsleiki á árinu og náði að skora mark.

Kvennaflokkur:

Margrét Lára Viðarsdóttir fór á kostum með liði sínu Val í sumar þegar liðið varð íslandsmeistari og varð markadrottning Landsbankadeildarinnar fimmta árið í röð. Hún varð einnig markadrottning undankeppni EM þar sem hún skoraði 14 mörk þegar íslenska liðið tryggði sér þátttöku á lokamótinu. Margrét Lára hefur skorað 43 mörk í 46 landsleikjum.

Í öðru sæti varð Hólmfríður Magnúsdóttir hjá KR sem varð í öðru sæti á Íslandsmótinu og fór svo á kostum þegar KR varð bikarmeistari þar sem hún skoraði þrennu í úrslitaleiknum. Hólmfríður var líka í stuði með landsliðinu og skoraði fjögur mörk í átta leikjum.

Í þriðja sæti var Dóra María Lárusdóttir hjá Val sem skoraði 15 mörk í 17 leikjum með Íslandsmeisturunum í sumar. Hún lék alla tólf leiki landsliðsins og skoraði tvö gríðarlega mikilvæg mörk í síðari úrslitaleiknum við Íra í umspilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×