Viðskipti erlent

Búist við óbreyttum vöxtum á meginlandinu

Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, ásamt Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.
Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, ásamt Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Mynd/AFP

Stýrivaxtadagur er á evrusvæðinu og í Bretlandi á morgun. Sérfræðingar reikna flestir með óbreyttu vaxtastigi þrátt fyrir svartsýnar efnahagshorfur á næstunni.

Stýrivextir á evrusvæðinu standa í 4,25 prósentum en í Bretlandi í fimm prósentum.

Breska ríkisútvarpið segir menn tvístígandi innandyra hjá Englandsbanka enda aðstæður í bresku efnahagslífi afar slæmar í kjölfar alþjóðlegrar lánsfjárkreppu og verðhruns á fasteignamarkaði. Þá er atvinnuleysi í hæstu hæðum auk þess sem verðbólga mælist 4,4 prósent.

Haft hefur verið eftir Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, að aðstæður sé þær verstu í 60 ár.

Þrátt fyrir verðbólguna telja menn að Englandsbanki grípi í taumana til að koma í veg fyrir að samdráttarskeið gangi yfir og lækki stýrivexti fyrir árslok til að koma hjólum efnahagslífsins í gang. Því er sömuleiðis spáð að til að koma í veg fyrir að svartsýnisspár gangi eftir verði vaxtastigið keyrt niður í 3,5 prósent á næsta ári. Líkurnar á því aukast raunar eftir því sem olíu- og matvöruverð lækki.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×