Menning

Bjartmar leigir leikhús í London

Mr. Kolpert verður sýnt frá 1. til 12. október í Greenwich Playhouse í London, en verkið er frumraun Bjartmars í leikstjórn.
Mr. Kolpert verður sýnt frá 1. til 12. október í Greenwich Playhouse í London, en verkið er frumraun Bjartmars í leikstjórn.

Bjartmar Þórðarson þreytti frumraun sína sem leikstjóri í verki sem frumsýnt var í London í gær.

„Ég og félagi minn erum að setja upp tvær sýningar með hléi á milli, sem við leikstýrum hvor í sínu lagi," segir Bjartmar Þórðarson leikari, sem leikstýrir verkinu Mr. Kolpert í Greenwich Playhouse í London. Leikritið var frumsýnt í gær og er frumraun Bjartmars í leikstjórn. Hann útskrifaðist sem leikari árið 2004, en er nú að ljúka mastersnámi í leikstjórn frá Rose Bruiford-leiklistar­skólanum.

„Ég og Ryland Alexander, félagi minn, fengum svokallaðan „career development"-styrk sem við ákváðum að nota til að leigja leikhús. Ry­land setti upp einleik en fimm leikarar eru í sýningunni minni, sem er bæði lokaverkefni og fyrsta sýning eftir nám. Ég réði leikarana eftir prufur sem ég hélt úti í ágúst, en nokkra þekkti ég frá því að ég var í Webber-Douglas-leiklistarskólanum," útskýrir Bjartmar, sem hefur verið búsettur í London undan­farið ár.

Aðspurður segist hann stefna á að flytja aftur til Íslands að námi loknu. „Ég er að fara í smá leikstjórnarverkefni á Íslandi í októ­ber, en annars er ég bara að leita að verkefnum, hvort sem er á Íslandi eða erlendis. Það sem heillar mig mest er að geta starfað bæði við leikstjórn og leiklist, svo maður fái örugglega ekki leiða á öðru hvoru. Það væri draumastaðan," segir Bjartmar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×