Glápritinn Einar Már Jónsson skrifar 15. október 2008 06:00 Um hvað hugsa þeir sem stjórna sjónvarpsþáttum? Ef marka má frönsku heimildarmyndina „20 mínútna hamingja" sem nú er verið að sýna í kvikmyndahúsum Parísar hafa þeir hugann fyrst og fremst við það sem kallað er „audimat" á frönsku og hægt væri að kalla „gláprita" á vora tungu. Efni þessarar kvikmyndar er sjónvarpsþáttur einn, sem sýndur var á „stöð 1" í Frakklandi á hverju mánudagskvöldi í fjögur ár við allmiklar vinsældir. Þetta var „raunveruleikasýning" sem byggðist á því að leiddar voru saman í sjónvarpssal tvær persónur sem lífið hafði á einhvern hátt skilið að, kannske systkini sem höfðu farið hvort í sína átt þegar fjölskylda leystist upp, elskendur sem höfðu misst hvort af öðru og fleira af því tagi. Annar aðilinn var sem sé að leita að hinum, en sjónvarpsmennirnir höfðu upp á honum og buðu í þáttinn án þess að hann vissi frá hverjum boðið var, það uppgötvaði hann ekki fyrr en á hólminn var komið. Aðilarnir tveir ræddu nú saman á sjónvarpssviði með tjald á milli og reyndu að gera upp sín mál. Ef báðir voru sammála endaði þátturinn á því að tjaldið var dregið frá, þátttakendurnir hittust nú augliti til auglitis og féllust kannske í faðma. Höfundar heimildarmyndarinnar höfðu fengið að fylgjast með gerð þáttanna nokkra mánuði árið 2006, leit að þátttakendum, undirbúningi upptöku og síðast en ekki síst samtölum sjónvarpsmannanna sín á milli um þáttinn, og um þetta snerist myndin. En hvað er nú eiginlega þessi glápriti? Svarið við þeirri spurningu var nú að fá í þessari heimildarmynd, sem hófst á nokkurs konar fyrirlestri um þetta merka fyrirbæri. Glápritinn er sem sé tól sem fer í gang um leið og kveikt er á sjónvarpstæki sem hann er tengdur við. Eftir stutta stund fer hann svo að pípa illilega til að minna viðstadda sjónvarpsglápendur á að þeir verði að segja deili á sér, og það gera þeir með því að ýta á til þess gerða takka, einn takka fyrir „heimilisföðurinn", einn takka fyrir „húsfreyjuna", einn takka fyrir „barn 1", einn takka fyrir „barn 2" og þar fram eftir götunum. Síðan skráir glápritinn á hvaða stöð sé horft, á hvaða stund, hvort og hvenær skipt sé yfir á aðra stöð og sendir þær upplýsingar um leið til miðstöðvar þar sem fylgst er með öllu og staðtölur reiknaðar upp á mínútu. Það eina sem vantaði í þennan fyrirlestur voru upplýsingar um það hverjir væru þeirrar náðar aðnjótandi að hafa þetta tól í heimahúsum, hvað þeir fengju fyrir sinn snúð o.þ.h. Hins vegar sýndi heimildarmyndin ágætlega til hvaða brúks þessi glápriti er hafður. Það er varla ofmælt að segja að sjónvarpsmennirnir hafi að staðaldri verið með augun á honum. Eftir hvern þátt fóru þeir yfir línurit og skoðuðu vendilega hve margir hefðu horft á hann, hverjir það hefðu verið, hve margir hefðu hætt að fylgjast með honum af hverjum flokki manna og hvenær: „Nákvæmlega á þessari mínútu misstum við hundrað þúsund áhorfendur, hvað gerðist þá? Hvernig stendur á þessari fækkun? Hvað gerði það eiginlega að verkum að á þessu augnabliki skiptu húsmæðurnar yfir á aðra stöð?" Með þessa visku að bakhjarli reyndu sjónvarpsmennirnir svo að fyrirbyggja að menn gæfust upp á glápinu. Þeir reyndu að fá eins spennandi gesti og hægt væri og veiða þá sem gestirnir vildu síðan bjóða, kannske með því að hafa fyrst samband við þá á fölskum forsendum, tala þá síðan til á einn eða annan hátt og annað eftir því. En að mörgu var að gæta, og kom sérstaklega fram að það þurfti að varast að hafa of mikið af örgum mönnum. „Ef maður segir: hvað heitir nú ástin þín Jón, og hann svarar Guðmundur, skipta sjö hundruð þúsund heimilisfeður samstundis um stöð", sagði helsti forsprakki þáttanna. En annað var ekki síður mikilvægt: það mátti aldrei hafa neitt sem ekki væri alveg augljóst um leið. „Að þurfa að skilja er lúxus sem aðeins fáir menn geta leyft sér", sagði forsprakkinn einnig. Vitanlega var það auglýsinganna vegna að nauðsynlegt var að ná hámarksglápi og halda í það, og minnir þetta mjög á þau orð sem yfirmaður þessarar sömu sjónvarpsstöðvar missti einu sinni af vangá út fyrir tanngarðinn: „Hlutverk okkar er að selja kókakóla-fyrirtækinu móttækileg heilabú." En athyglisvert er að sjónvarpsmennirnir skyldu tala svona frjálslega fyrir framan kvikmyndavélar þeirra sem gerðu heimildarmyndina, enda fór svo að þeir sáu sig um hönd og hleyptu öllu af stað til að koma í veg fyrir að myndin yrði sýnd, en án árangurs. Þau urðu hins vegar örlög þáttanna að vísar glápritans tóku að hallast niður á við, og þá fékk hann umyrðalaust að fjúka. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Vegna FB færslu Kristins Hrafnssonar: Misskilningur um endurgreiðslukerfi kvikmynda Ólafur William Hand Skoðun Hvernig tölum við um mat í kringum börnin okkar? Berglind Lilja Guðlaugsdóttir Skoðun
Um hvað hugsa þeir sem stjórna sjónvarpsþáttum? Ef marka má frönsku heimildarmyndina „20 mínútna hamingja" sem nú er verið að sýna í kvikmyndahúsum Parísar hafa þeir hugann fyrst og fremst við það sem kallað er „audimat" á frönsku og hægt væri að kalla „gláprita" á vora tungu. Efni þessarar kvikmyndar er sjónvarpsþáttur einn, sem sýndur var á „stöð 1" í Frakklandi á hverju mánudagskvöldi í fjögur ár við allmiklar vinsældir. Þetta var „raunveruleikasýning" sem byggðist á því að leiddar voru saman í sjónvarpssal tvær persónur sem lífið hafði á einhvern hátt skilið að, kannske systkini sem höfðu farið hvort í sína átt þegar fjölskylda leystist upp, elskendur sem höfðu misst hvort af öðru og fleira af því tagi. Annar aðilinn var sem sé að leita að hinum, en sjónvarpsmennirnir höfðu upp á honum og buðu í þáttinn án þess að hann vissi frá hverjum boðið var, það uppgötvaði hann ekki fyrr en á hólminn var komið. Aðilarnir tveir ræddu nú saman á sjónvarpssviði með tjald á milli og reyndu að gera upp sín mál. Ef báðir voru sammála endaði þátturinn á því að tjaldið var dregið frá, þátttakendurnir hittust nú augliti til auglitis og féllust kannske í faðma. Höfundar heimildarmyndarinnar höfðu fengið að fylgjast með gerð þáttanna nokkra mánuði árið 2006, leit að þátttakendum, undirbúningi upptöku og síðast en ekki síst samtölum sjónvarpsmannanna sín á milli um þáttinn, og um þetta snerist myndin. En hvað er nú eiginlega þessi glápriti? Svarið við þeirri spurningu var nú að fá í þessari heimildarmynd, sem hófst á nokkurs konar fyrirlestri um þetta merka fyrirbæri. Glápritinn er sem sé tól sem fer í gang um leið og kveikt er á sjónvarpstæki sem hann er tengdur við. Eftir stutta stund fer hann svo að pípa illilega til að minna viðstadda sjónvarpsglápendur á að þeir verði að segja deili á sér, og það gera þeir með því að ýta á til þess gerða takka, einn takka fyrir „heimilisföðurinn", einn takka fyrir „húsfreyjuna", einn takka fyrir „barn 1", einn takka fyrir „barn 2" og þar fram eftir götunum. Síðan skráir glápritinn á hvaða stöð sé horft, á hvaða stund, hvort og hvenær skipt sé yfir á aðra stöð og sendir þær upplýsingar um leið til miðstöðvar þar sem fylgst er með öllu og staðtölur reiknaðar upp á mínútu. Það eina sem vantaði í þennan fyrirlestur voru upplýsingar um það hverjir væru þeirrar náðar aðnjótandi að hafa þetta tól í heimahúsum, hvað þeir fengju fyrir sinn snúð o.þ.h. Hins vegar sýndi heimildarmyndin ágætlega til hvaða brúks þessi glápriti er hafður. Það er varla ofmælt að segja að sjónvarpsmennirnir hafi að staðaldri verið með augun á honum. Eftir hvern þátt fóru þeir yfir línurit og skoðuðu vendilega hve margir hefðu horft á hann, hverjir það hefðu verið, hve margir hefðu hætt að fylgjast með honum af hverjum flokki manna og hvenær: „Nákvæmlega á þessari mínútu misstum við hundrað þúsund áhorfendur, hvað gerðist þá? Hvernig stendur á þessari fækkun? Hvað gerði það eiginlega að verkum að á þessu augnabliki skiptu húsmæðurnar yfir á aðra stöð?" Með þessa visku að bakhjarli reyndu sjónvarpsmennirnir svo að fyrirbyggja að menn gæfust upp á glápinu. Þeir reyndu að fá eins spennandi gesti og hægt væri og veiða þá sem gestirnir vildu síðan bjóða, kannske með því að hafa fyrst samband við þá á fölskum forsendum, tala þá síðan til á einn eða annan hátt og annað eftir því. En að mörgu var að gæta, og kom sérstaklega fram að það þurfti að varast að hafa of mikið af örgum mönnum. „Ef maður segir: hvað heitir nú ástin þín Jón, og hann svarar Guðmundur, skipta sjö hundruð þúsund heimilisfeður samstundis um stöð", sagði helsti forsprakki þáttanna. En annað var ekki síður mikilvægt: það mátti aldrei hafa neitt sem ekki væri alveg augljóst um leið. „Að þurfa að skilja er lúxus sem aðeins fáir menn geta leyft sér", sagði forsprakkinn einnig. Vitanlega var það auglýsinganna vegna að nauðsynlegt var að ná hámarksglápi og halda í það, og minnir þetta mjög á þau orð sem yfirmaður þessarar sömu sjónvarpsstöðvar missti einu sinni af vangá út fyrir tanngarðinn: „Hlutverk okkar er að selja kókakóla-fyrirtækinu móttækileg heilabú." En athyglisvert er að sjónvarpsmennirnir skyldu tala svona frjálslega fyrir framan kvikmyndavélar þeirra sem gerðu heimildarmyndina, enda fór svo að þeir sáu sig um hönd og hleyptu öllu af stað til að koma í veg fyrir að myndin yrði sýnd, en án árangurs. Þau urðu hins vegar örlög þáttanna að vísar glápritans tóku að hallast niður á við, og þá fékk hann umyrðalaust að fjúka.
Vegna FB færslu Kristins Hrafnssonar: Misskilningur um endurgreiðslukerfi kvikmynda Ólafur William Hand Skoðun
Vegna FB færslu Kristins Hrafnssonar: Misskilningur um endurgreiðslukerfi kvikmynda Ólafur William Hand Skoðun