Íslenski boltinn

Margrét Lára þakklát áhorfendum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði þrennu gegn Slóvenum í dag og þakkaði áhorfendum sérstaklega fyrir stuðninginn á Laugardalsvelli í dag.

Tæplega fjögur þúsund manns komu á leikinn í dag sem er næstmesti fjöldi sem hefur komið á A-landsleik í kvennaflokki frá upphafi.

„Mér fannst áhorfendur vera frábærir og við kunnum þeim bestu þakkir. Við óskum eftir fleiri áhorfendum á fimmtudag en gerum samt alls ekki lítið úr þeim sem mættu í dag."

Ísland mætir Grikklandi á fimmtudaginn kemur en sigur þarf einnig að vinnast í þeim leik upp á framhaldið að gera. Margrét Lára fór frekar snemma af velli í dag vegna meiðsla.

„Ég hef lent í fremur erfiðum meiðslum að undanförnu og hef verið að vinna mig upp úr því hægt og rólega. Þessi leikur gaf mér mikið sjálfstraust og liðinu í heild sinni. Samherjar mínir voru líka duglegir að dæla á mig boltum og get ég ekki kvartað undan þeirri þjónustu."

„En maður þarf líka að vera skynsamur enda leikur strax á fimmtudaginn. En ég verð klár í slaginn þá, það er ekki spurning."

Hún sagði að þessi leikur hefði spilast eins og íslenska liðið ætlaði sér.

„Við ætluðum að pressa mikið á þær, skora snemma og brjóta þær þannig á bak aftur. Það tókst mjög vel og þó svo að þær hafi mætt grimmar í leikinn kæfðum við þær strax í byrjun, bæði með spilamennsku okkar og áhorfendum. Þær voru svo orðnar þreyttar í seinni hálfleik og keyrðum við þá á þær."

„Það er líka alveg ljóst að við þurfum að mæta af fullum krafti í næsta leik. Við munum fagna þessum sigri í kvöld og byrja svo undirbúning fyrir leikinn gegn Grikkjum á morgun."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×