Menning

Arnaldur Indriðason rýfur fimm milljóna múrinn

Arnaldur Indriðason hefur nú náð þeim einstæða árangri að selja yfir fimm milljónir eintaka bóka sinna - þar af þrjár milljónir í Þýskalandi.
Arnaldur Indriðason hefur nú náð þeim einstæða árangri að selja yfir fimm milljónir eintaka bóka sinna - þar af þrjár milljónir í Þýskalandi.

„Já, þetta er nokkuð gott. Og hlýtur að vera mikið gleðiefni hvernig gengið hefur með þessar bækur mínar um allan heim: Þýskalandi, Frakklandi, Svíþjóð, Noregi, Hollandi og svo í 36 útgáfulöndum öðrum," segir Arnaldur Indriðason metsöluhöfundur.

Arnaldur hefur nú náð þeim einstæða áfanga að rjúfa fimm milljóna múrinn. Það er: Hann hefur selt fleiri eintök bóka sinna en fimm milljónir á heimsvísu. Enginn núlifandi rithöfundur íslenskur kemst með tærnar þar sem Arnaldur hefur hælana í þessu sambandi. Talið er að bækur Halldórs Laxness hafi farið í viðlíka eintakafjölda og hugsanlega Nonna-bækur séra Jóns Sveinssonar en engar ábyggilegar upplýsingar eru fyrirliggjandi þar um. Af þessum fimm milljónum hafa þrjár milljónir selst í Þýskalandi. Arnaldur segist svo sem ekki hafa neinar skýringar á því nema ef vera kynni að þeim Þjóðverjum þyki Erlendur, helsta söguhetja bóka Arnaldar, svona skemmtilegur. „Og svo er náttúrlega rótgróinn áhugi á Íslandi þar. Kannski að þetta tvennt ráði þessu," segir Arnaldur. Hann segir bærilega hafa gengið með útgáfu bóka sinna á Bandaríkjamarkaði, sem er gríðarlega stór, en þar er mjög erfitt fyrir nýja höfunda að komast að.

Á laugardaginn kemur út ný bók eftir Arnald - Myrká - sem verður frumprentuð í stærra upplagi en áður hefur þekkst á Íslandi eða í uppundir þrjátíu þúsund eintökum. Plastið verður rifið af bókabrettinu með viðhöfn í Eymundsson við söng Lögreglukórsins auk þess sem upplesari Íslands, Hjalti Rögnvaldsson leikari, mun lesa upp úr bókinni. Aðspurður hvort ekki gæti spennu hjá höfundi í tengslum við þetta segir Arnaldur: „Þetta er nú tólfta bókin á jafn mörgum árum. Maður er farinn að taka því aðeins rólegar en auðvitað er alltaf spenningur."

Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, er að vonum ánægður með árangurinn: „Þjóðverjar elska Arnald. Það er ljóst. Frábær árangur hjá Arnaldi að vera búinn að selja þrjár millljónir eintaka í Þýskalandi einu. Ekki eru til nákvæmar tölur um hversu mörg eintök bóka Arnaldar hafa selst á Íslandi en slá má á að þau séu rúmlega 300 þúsund sem þýðir eitt eintak á hvern íbúa. Sem hlýtur að teljast tækt í heimsmetabók Guinness," segir Egill.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun Myrká koma lesendum á óvart burtséð frá þeim glæp sem um ræðir en sjálfur Erlendur kemur nánast ekkert við sögu heldur virðist hann týndur á fjöllum. Yfirgefinn bílaleigubíll hans finnst við kirkjugarð austur á fjörðum og er það því Elínborg sem leiðir málið. Og fá lesendur meðal annars að kynnast betur matargerðaráhuga hennar sem má heita tilbreyting frá fábreyttri fæðu sem Erlendur lögregluforingi leggur sér til munns.

jakob@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×