Ástæða til að næra reiðina Jón Kaldal skrifar 16. nóvember 2008 06:00 Eins og margir hafa bent á felast fjölmörg tækifæri í því upplausnarástandi sem nú ríkir. Eitt það stærsta, fyrir hvern og einn, er að líta í eigin barm og hugleiða möguleika sína til að hafa áhrif á hvernig samfélag rís upp úr þeim ruslahaug sem stefna síðustu sautján ára hefur skilið eftir sig. Í því samhengi er nauðsynlegt að hafa bak við eyrað að þjóðin á ekki skilið aðra stjórnendur en þá sem hún kýs til að stjórna sér. Og ekki síður að ef þeir bregðast eru kosningar eina tækifærið til að láta þá sæta ábyrgð. Því miður hafa íslenskir kjósendur hingað til reynst illa haldnir af minnisleysi þegar kjördagur rennur upp. Ítrekað hafa þeir veitt bæði heilum stjórnmálaflokkum og einstaklingum syndaaflausn með atkvæði sínu. Í raun er ekkert skrítið að íslenskir stjórnmálamenn telji sig geta setið sem fastast, sama hversu ævintýraleg afglöp þeir hafa framið. Þeir eru bara svona illa upp aldir af þjóðinni. Að næra reiðina innra með sér er ekki uppbyggilegt athæfi. Ef við ætlum að ná fram einhverjum breytingum til batnaðar er hins vegar algjörlega nauðsynlegt að þjóðin festi í hug sér þær tilfinningar sem bulla nú innra með henni. Kjósendur munu örugglega ekki þurfa að bíða til vorsins 2011 með að láta skoðun sína í ljós. Miklar líkur eru á því að kosið verði innan sex mánaða, tæplega seinna en næsta vor. Stjórnmálaflokkarnir eru þegar farnir að setja sig í kosningastellingar. Á föstudag ákvað Sjálfstæðisflokkur að boða til landsfundar í janúar og í gær ákvað Framsóknarflokkurinn að halda flokksþing í sama mánuði. Báðir eiga þessir flokkar það sameiginlegt að innan þeirra raða ríkir glundroði um það sem lítur út fyrir að verða eitt helsta stefnumál næstu kosninga: Hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Flokkarnir eiga það líka sameiginlegt að formenn þeirra eru yfirlýstir andstæðingar Evrópusambandsins. Það sem er á hinn bóginn ólíkt með flokkunum er að innan Framsóknar er mun minna hik við að taka slaginn en hjá Sjálfstæðisflokknum. Þetta sést best á þeirri yfirlýsingu miðstjórnarfundar framsóknarmanna að á komandi flokksþingi verður kosið um hvort ganga eigi til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Hefur sú yfirlýsing yfir sér mun fumlausara og ákveðnara yfirbragð en máttleysisleg tilkynning sjálfstæðismanna um skipun nefndar til að fjalla um Evrópumálin fyrir landsfundinn. Annað sem er ólíkt með þessum flokkum er að átök framsóknarmanna um Evrópumálin snerta í raun fáa aðra en þá sjálfa. Nema þegar þau lenda inni í stofum landsmanna sem farsi eða harmleikur, eftir smekk hvers og eins, í leikstjórn Bjarna Harðarsonar fyrrverandi þingmanns. Átökin í Sjálfstæðisflokknum koma hins vegar öllum við sama hvaða tilfinningar fólk ber til flokksins. Þar er sjálfum Seðlabankanum beitt í hatrömmum innanflokksátökum, landi og þjóð til stórkostlegs skaða. Á því ástandi bera ábyrgð núverandi og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Eru þeir þar samir við sig og munu aldrei breytast. Í þeirra hug er flokkur alltaf framar þjóð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Með baunabyssu í kennaraverkfalli Ólafur Hauksson Skoðun Vanvirðing við einkaframtakið og verðmætasköpun Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Við þurfum að tala um Bálstofuna Matthías Kormáksson Skoðun Það þarf meiri töffara í okkur Davíð Már Sigurðsson Skoðun Verðum að rannsaka hvað gerðist í Covid Hildur Þórðardóttir Skoðun Samfylkingin ætlar ekki að hækka tekjuskatt Alma D. Möller Skoðun Á að banna rauða jólasveininn? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Treystir þú konum? Hópur 72 kvenna úr sex stjórnmálaflokkum Skoðun Unga fólkið og frjósemi María Rut Baldursdóttir,Sigríður Auðunsdóttir Skoðun
Eins og margir hafa bent á felast fjölmörg tækifæri í því upplausnarástandi sem nú ríkir. Eitt það stærsta, fyrir hvern og einn, er að líta í eigin barm og hugleiða möguleika sína til að hafa áhrif á hvernig samfélag rís upp úr þeim ruslahaug sem stefna síðustu sautján ára hefur skilið eftir sig. Í því samhengi er nauðsynlegt að hafa bak við eyrað að þjóðin á ekki skilið aðra stjórnendur en þá sem hún kýs til að stjórna sér. Og ekki síður að ef þeir bregðast eru kosningar eina tækifærið til að láta þá sæta ábyrgð. Því miður hafa íslenskir kjósendur hingað til reynst illa haldnir af minnisleysi þegar kjördagur rennur upp. Ítrekað hafa þeir veitt bæði heilum stjórnmálaflokkum og einstaklingum syndaaflausn með atkvæði sínu. Í raun er ekkert skrítið að íslenskir stjórnmálamenn telji sig geta setið sem fastast, sama hversu ævintýraleg afglöp þeir hafa framið. Þeir eru bara svona illa upp aldir af þjóðinni. Að næra reiðina innra með sér er ekki uppbyggilegt athæfi. Ef við ætlum að ná fram einhverjum breytingum til batnaðar er hins vegar algjörlega nauðsynlegt að þjóðin festi í hug sér þær tilfinningar sem bulla nú innra með henni. Kjósendur munu örugglega ekki þurfa að bíða til vorsins 2011 með að láta skoðun sína í ljós. Miklar líkur eru á því að kosið verði innan sex mánaða, tæplega seinna en næsta vor. Stjórnmálaflokkarnir eru þegar farnir að setja sig í kosningastellingar. Á föstudag ákvað Sjálfstæðisflokkur að boða til landsfundar í janúar og í gær ákvað Framsóknarflokkurinn að halda flokksþing í sama mánuði. Báðir eiga þessir flokkar það sameiginlegt að innan þeirra raða ríkir glundroði um það sem lítur út fyrir að verða eitt helsta stefnumál næstu kosninga: Hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Flokkarnir eiga það líka sameiginlegt að formenn þeirra eru yfirlýstir andstæðingar Evrópusambandsins. Það sem er á hinn bóginn ólíkt með flokkunum er að innan Framsóknar er mun minna hik við að taka slaginn en hjá Sjálfstæðisflokknum. Þetta sést best á þeirri yfirlýsingu miðstjórnarfundar framsóknarmanna að á komandi flokksþingi verður kosið um hvort ganga eigi til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Hefur sú yfirlýsing yfir sér mun fumlausara og ákveðnara yfirbragð en máttleysisleg tilkynning sjálfstæðismanna um skipun nefndar til að fjalla um Evrópumálin fyrir landsfundinn. Annað sem er ólíkt með þessum flokkum er að átök framsóknarmanna um Evrópumálin snerta í raun fáa aðra en þá sjálfa. Nema þegar þau lenda inni í stofum landsmanna sem farsi eða harmleikur, eftir smekk hvers og eins, í leikstjórn Bjarna Harðarsonar fyrrverandi þingmanns. Átökin í Sjálfstæðisflokknum koma hins vegar öllum við sama hvaða tilfinningar fólk ber til flokksins. Þar er sjálfum Seðlabankanum beitt í hatrömmum innanflokksátökum, landi og þjóð til stórkostlegs skaða. Á því ástandi bera ábyrgð núverandi og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Eru þeir þar samir við sig og munu aldrei breytast. Í þeirra hug er flokkur alltaf framar þjóð.