Erlent

Olmert undirbýr skiptingu Jerúsalem

Óli Tynes skrifar
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels gaf í skyn í dag að Ísraelar kunni að neyðast til þess að deila Jerúsalem með Palestínumönnum. Stefnan hingaðtil hefur verið að Jerúsalem sé heil og óskipt höfuðborg Ísraelsríkis.

Palestínumenn gera kröfu um austurhluta borgarinnar sem höfuðborg ríkisins sem þeir ætla að stofna á Gaza ströndinni og Vesturbakkanum.

Olmert sagði í blaðaviðtali að vinir Ísraels, sem í raun styðji landið þegar talað er um framtíðina tali um Ísrael eins og það var fyrir sex daga stríðið árið 1967. Í því stríði hertóku Ísraelar Austur-Jerúsalem. Þar er meðal annars grátmúrinn sem er helgasti staður Gyðinga.

Talið er að með þessum ummælum sé Olmert að búa þjóðina undir að þurfa að gefa eftir í Jerúsalem. Talað hefur verið um að helgistaðir þar lúti alþjóðlegri stjórn til að tryggja að öll trúarbrögð hafi aðgang að helgistöðum sínum í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×