Erlent

Er þinn fiskur veiddur í troll?

Óli Tynes skrifar

Grænfriðungar ætla í lok þessa mánaðar að birta lista yfir verslanir í Danmörku sem selja fisk. Verslanirnar fá einkunnir eftir því hvort fiskafurðir þeirra eru úr sjálfbærum stofnum og veiddar á mannúðlegan hátt.

Fiskur sem veiddur er með botnvörpu er til dæmis bannvara.

Verslanakeðjan Aldi hótar Grænfriðungum málssókn ef hún verður á þessum lista. Grænfriðungar hafa sent dönskum verslunum lista með um 200 spurningum sem þær eru beðnar að svara til þess að hægt sé að gefa þeim einkunnir.

Þetta neitar Aldi að gera og segist ekki þurfa að standa Grænfriðungum skil á verslunarháttum sínum.

Fleiri verslanir og verslanakeðjur hafa tekið í sama streng, meðal annars Dansk Supermarked.

Í bréfi til Aldis segja Grænfriðungar að fyrst keðjan neiti að svara, muni þeirra eigin sérfræðingar fylla út spurningalistann eftir bestu getu.

Þessu ætlar Aldi ekki að una og hótar skaðabótamáli ef keðjan verði á listanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×