Íslenski boltinn

Kvennalandsliðið leikur gegn Finnlandi í maí

Elvar Geir Magnússon skrifar
Marki gegn Frakklandi fagnað.
Marki gegn Frakklandi fagnað.

Íslenska kvennalandsliðið mun leika tvo vináttulandsleiki gegn Finnum ytra 4. og 7. maí næstkomandi. Leikirnir verða liður í lokaundirbúningi fyrir mikilvægan leik gegn Serbum í Serbíu 28. maí en sá leikur er í undankeppni EM 2009.

Úrslitakeppni þess móts fer einmitt fram í Finnlandi og leika Finnar því ekki í riðlakeppninni þar sem að þeir eru gestgjafar. Leikirnir gegn Finnum fara væntanlega fram á þeim völlum er notaðir verða í úrslitakeppninni sjálfri.

Fyrirhugað er að Finnar endurgjaldi heimsóknina árið 2009 og leiki þá 1-2 vináttulandsleiki hér á landi.

Íslendingar og Finnar hafa fjórum sinnum mæst hjá A-landsliðum kvenna, síðast árið 1997. Finnar hafa þrisvar sinnum farið með sigur af hólmi en Íslendingar einu sinni.

Fyrsti leikur þjóðanna fór fram á Kópavogsvelli árið 1983 í undankeppni EM og var þetta fimmti kvennalandsleikur Íslands frá upphafi. Finnar sigruðu með tveimur mörkum gegn engu.

Eini sigurleikur Íslands gegn Finnum til þessa kom í vináttulandsleik sem leikinn var í Portúgal árið 1996. Íslenska liðið sigraði þá með þremur mörkum gegn einu og skoraði Ásthildur Helgadóttir tvö marka Íslands og Helga Ósk Hannesdóttir eitt.

Af vefsíðu KSÍ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×